Eiður Alfreðsson

Prófessor Alfreðsson

Þetta er síðasta færslan hér. Nýtt efni verður á
http://www.professoralfredsson.com/.

Þar má einnig finna allar eldri færslur héðan.

Fálkaorðan afturkölluð

Fred Goodwin er ekki lengur “sir”. Gott mál.

Hvenær ætlar Óli Forseti að afturkalla orðurnar til fávitanna?

Sköpun mannsins / The creation of man

Frændi minn, Magnús Stefánsson (a.k.a. Örn Arnarson), kvað svo fyrir allnokkrum árum:

SKÖPUN MANNSINS

Alfaðir í Eden fann
apa, sem um greinar rann,
ætlaði að gera úr honum mann,
sem elskaði guð og náungann.

Sat hann við með sveittar brár
sextán hundruð þúsund ár.
Apinn reyndist þrjózkur, þrár,
þykkjukaldur og hyggjuflár.

Að hálfu leyti api enn,
eðlin geymir tvenn og þrenn,
lítil von hann lagist senn.
Lengi er guð að skapa menn.

Julia og ég höfum nú snarað þessu á ensku svo:

THE CREATION OF MAN

The ancient Lord in Eden found
an ape in trees who ran around.
Wished of him a man to make,
made god-fearing by a snake.

He sought his goal with sweat and tears
for sixteen hundred thousand years.
The ape was stubborn, strong of will,
stupid and of temper ill.

Half-ape, half-man for all to see,
his essence split in two or three.
Grave his hope for greater mind.
God needs time to make mankind.

Ljósmyndastofa Ríkisins

Ég var að reka augun í þessa frétt á DV:
Ljósmyndari vill fyrir Hæstarétt

Arnar Geir Kárason vill taka ljósmyndir af fólki gegn greiðslu. Gott framtak. En bíðið við! Hann er ekki löggiltur ljósmyndari! Hér er hætta á ferðum! Það er ekki hægt að ætlast til að fólk geti sjálft ákveðið hvort það er ánægt með portreitið sem kemur út úr prentaranum. En sem betur fer eru lög í landinu sem forða heimskum almenningi frá því að lenda í klónum á svona glæpamönnum.

En það eru holur í kerfinu. Hver sem er getur opanð búð og fyrirtæki án þess að hafa til þess menntun. Fyrirsætur geta tekið greiðslu fyrir störf sín án þess að hafa útskrifast úr Fyrirsætuskólanum. Ólærðir fúskarar geta fengið borgað fyrir að mála myndir af fólki. Hljóðfæraeigendur geta spilað gigg fyrir pening án þess að hafa prófskírteini frá Tónskóla Sigursveins.

Þetta ber að stöðva! Líf og heilsa borgaranna er í veði!

Bretar óttast Kötlugos: Frétt slær í gegn á BBC

http://www.dv.is/frettir/2011/12/2/bretar-ottast-kotlugos-frett-slaer-i-gegn-bbc/

Æl!

Hvað ef varamaðurinn er hálfviti?

Í hádegisfréttum RÚV í dag var fjallað um tillögur B-nefndar Stjórnlagaráðs um að þingforseti og ráðherrar verði að kalla til varamenn á meðan þeir gegna þessum embættum.

Ég vona að Stjórnlagaráð leggi einnig til persónukjör, en mér sýnist að þessar tillögur útiloki það, a.m.k. að hluta til. Hugmyndin um varamenn (eins og hún er í dag) er frekar skrýtin ef við viljum hafa persónukjör. Í augnablikinu kemur varamaður úr sama flokki og viðkomandi þingmaður, en hvaðan á hann að koma ef við hættum að kjósa flokka? Þetta mætti náttúrulega leysa með því að þingmenn hafi ekki persónulega varamenn, heldur komi bara næsti maður inn (úr kjördæminu eða, það sem betra er, öllu landinu). (Ef við hugsum okkur að við kjósum 31 þingmann beint og einn lendir undir strætó, þá kemur sá sem var númer 32 í kosningunni inn).

Ef við notum sömu aðferð þegar þingmaður verður ráðherra eða þingforseti, þá er komin upp sú skrýtna staða að þingmaður með mikinn stuðning kjósenda dettur út af þingi, vegna þess að hann langar svo mikið í ráðherrastól, og við fáum Árna Johnsen í staðinn. Það eru svik við kjósendur.

Mér finnst heiðarlegra að banna hreinlega þingmönnum að vera ráðherrar eða þingforseti. Þá er alveg skýrt að kjósendur eru að velja sér þingmenn, en ekki ráðherra eða eitthvað annað.

Afskriftir og ársreikingar

Í Kastljósinu í gær var fjallað um afskriftir á skuldum tiltekinna sjávarútvegsfyrirtækja. Þar kom fram að erfitt/ómögulegt er að nálgast upplýsingar um þessi fyrirtæki ef þau hafa ekki skilað inn ársreikningi og jafnframt að viðurlög við að skila honum ekki inn væru þannig að það borgaði sig hreinlega ekki að gera það.

Væri ekki eðlilegt að gera það að skilyrði að fyrirtæki skiluðu inn ársreikningi áður en afskrifað er? Einnig mætti sjálfkrafa taka fyrirtæki af fyrirtækjaskrá og í framhaldinu leysa þau upp ef þau skila ekki inn innan tiltekins tíma.