Menntun íslenskra kennara

by eiduralfredsson

Ég var að horfa á umræðuþátt um menntamál á RÚV frá því í gærkvöldi (horfa hér). Nokkuð athyglisverðar umræður og gott að vita til þess að margir virðast vera að velta þessum málum fyrir sér.

Mikið var rætt um menntun barna og unglinga á hinum ýmsu skólastigum, en nánast ekkert um menntun kennaranna sjálfra. Eins og ég hef áður minnst á, þá dundaði ég mér aðeins við kennaranám í KHÍ fyrir allmörgum árum. Þá var námið 3 ár og var bæði slakt og of langt. Í umræðum gærkvöldsins heyrðist mér að búið væri að lengja námið í 5 ár! Ég vona að mér hafi misheyrst.

Einn þátttakandi í umræðunum benti á það að góður kennari væri lykilatriði. Slíkur kennari gæti hrifið nemendur með sér í þungu námi og að sama skapi gæti lélegur kennari fælt nemendur frá léttari greinum. Þar er ég alveg sammála. Og þá er spurningin: Er jákvætt orsakasamhengi milli lengdar kennaranáms og gæða kennara? Ef ekki, þá er ekki hægt að réttlæta 5 ára nám og augljóst tækifæri til að skera niður.

Advertisements