Njósnaheimildir lögreglu

by eiduralfredsson

Siv Friðleifsdóttir skrifar grein á Vísi í dag (sjá hér) þar sem hún fjallar um þingsályktunartillögu um auknar rannsóknarheimildir lögreglu, sem hún flytur, ásamt öðrum. Greinin er í stuttu máli órökstuddur hræðsluáróður um að lífið á Íslandi sé hættulegra en áður og meira um skiplagða glæpastarfsemi og þess vegna verði að leyfa lögreglunni að njósna um almenna borgara. Til að gera þetta enn svakalegra talar Siv um ólögleg fíkniefni og mansal.

Hér fara sama tveir hættulegir hlutir. Annars vegar þörf stjórnmálamanna til að breyta lögum og hins vegar tilhneiging löggæslumanna til að sækjast eftir meira valdi.

Málið snýst um tvær meginspurningar:

  1. Býr hinn almenni borgari við minna öryggi nú en áður?
  2. Auka auknar rannsóknarheimildir lögreglu öryggið?

Í hvorugu tilfellinu er nægilegt að styðjast við almenna tilfinningu fólks fyrir því hvað er að gerast. Það er vel þekkt mannsheilinn á mjög erfitt með að meta áhættu og flest fólk hefur mjög brenglaða hugmynd um þær hættur sem steðja að í daglegu lífi. Þetta er auðvelt að spila á með hræðsluáróðri um glæpagengi og hryðjuverkamenn. Það er ósköp auðvelt að stressa sig yfir fréttum af pólskum handrukkurum nútímans en gleyma því að brjálaður Íslendingur réðst á konu í Þverholtinu með skrúfjárni árið 1981 (sjá hér) og Dýrfirðingur, búsettur í Öræfasveit, rændi tveimur frönskum stúlkum og drap aðra þeirra á Skeiðarársandi árið 1982 (sjá hér).

Ef óháðar rannsóknir sýna að svarið við báðum ofangreindum spurningum er , þá er sjálfsagt að hugleiða lagasetningu. Annars ekki.

Ein meginástæða Hrunsins var sú að hagsmunaaðilar gátu stjórnað því hvaða lög og reglur giltu í landinu. Lögreglan er hagsmunaaðili í þessu máli og það er hættulegt að láta sjónarmið hennar stjórna því hvort hún fái að njósna um almenna borgara eða ekki. Tillögur sem þessar sýna glöggt að Alþingi hefur lítið lært og að vinnubrögð þess eru enn til skammar.

Advertisements