Hvað ef varamaðurinn er hálfviti?

by eiduralfredsson

Í hádegisfréttum RÚV í dag var fjallað um tillögur B-nefndar Stjórnlagaráðs um að þingforseti og ráðherrar verði að kalla til varamenn á meðan þeir gegna þessum embættum.

Ég vona að Stjórnlagaráð leggi einnig til persónukjör, en mér sýnist að þessar tillögur útiloki það, a.m.k. að hluta til. Hugmyndin um varamenn (eins og hún er í dag) er frekar skrýtin ef við viljum hafa persónukjör. Í augnablikinu kemur varamaður úr sama flokki og viðkomandi þingmaður, en hvaðan á hann að koma ef við hættum að kjósa flokka? Þetta mætti náttúrulega leysa með því að þingmenn hafi ekki persónulega varamenn, heldur komi bara næsti maður inn (úr kjördæminu eða, það sem betra er, öllu landinu). (Ef við hugsum okkur að við kjósum 31 þingmann beint og einn lendir undir strætó, þá kemur sá sem var númer 32 í kosningunni inn).

Ef við notum sömu aðferð þegar þingmaður verður ráðherra eða þingforseti, þá er komin upp sú skrýtna staða að þingmaður með mikinn stuðning kjósenda dettur út af þingi, vegna þess að hann langar svo mikið í ráðherrastól, og við fáum Árna Johnsen í staðinn. Það eru svik við kjósendur.

Mér finnst heiðarlegra að banna hreinlega þingmönnum að vera ráðherrar eða þingforseti. Þá er alveg skýrt að kjósendur eru að velja sér þingmenn, en ekki ráðherra eða eitthvað annað.

Advertisements