Er menntun leið út úr kreppu?

by eiduralfredsson

Margir vilja meina að menntun sé leið út úr kreppunni. Rektor Háskólans sagði þetta t.d. í Morgunblaðinu fyrir nokkrum vikum (man ekki alveg hvenær). Þetta hljómar svosem ágætlega, en hvað eiga menn við með orðinu menntun og hvernig getur hún hjálpað okkur út úr þessari kreppu og minnkað líkurnar á þeirri næstu?

Mér sýnist flestir leggja skólagöngu að jöfnu við menntun. Í þessum skilningi er skólagenginn maður menntaður og langskólagenginn hámenntaður. Hrunverjarnir eru flestir með háskólapróf. Hagfræðingar eru langskólagengnir og voru duglegir að mæra kerfið sem síðan reyndist ónýtt. Hefði farið betur ef þeir væru enn betur menntaðir? Er hugsanlegt að menntun þeirra hafi stuðlað að hruninu? Getur verið að þeir hafi ofmetnast við að mega sett BS eða BA eða aðra flotta bókstafi fyrir aftan nafnið sitt?

Eða eru þeir kannski bara langskólagengnir, en ómenntaðir?

Detox-Jónína fer mikinn í snákaolíusölumennskunni. Hún segist vera íþróttafræðingur og hefur þá væntanlega numið þau fræði við háskóla. Ef mér skjátlast ekki, þá útskrifast íþróttafræðingar sem BS. (Hvað skyldi S standa fyrir?) Það örlar ekki á vísindalegri hugsun í máli Jónínu. Hvað segir það okkur um menntun hennar? Læra íþróttafræðingar ekki vísindalega hugsun? Ef ekki, hvers vegna er þetta þá BS nám? Hefur Jónína kannski bara gleymt því sem hún lærði? Eða segir hún bara hvað sem er til að get selt það sem hún hefur að bjóða? Eru aðrir íþróttafræðingar sammála Jónínu?

Háskólapróf er ekki ávísun á skynsemi eða aukna rökhugsun. Háskólarnir kenna auðvitað margt snjallt en mörg fög eru vafasöm vísindi og standa á ótraustum grunni. Hagfræði og viðskiptafræði eru t.d. mjög ólík stærðfræði og eðlisfræði. Það er að meðaltali minna að marka orð hagfræðinga en stærðfræðinga um þeirra sérsvið.

Ég var í Kennaraháskólanum um tíma (áður hét sá skóli Kennaraskóli Íslands og var ekki háskóli). Mér sýndist talsverður hluti námsins þar vera gæluverkefni einstakra kennara. Við eyddum t.d. góðum hluta af heilli önn í að læra nýja aðferð við að kenna börnum að lesa. Fyrir utan það að þetta var ómögulegt í framkvæmd, sökum bekkjastærðar o.fl., þá var ekki orð um það hvort þetta skilaði betri árangri en þær aðferðir sem við notum núna. Þessu hefði alveg mátt sleppa að ósekju. Á þeim tíma var mikið rætt um nauðsyn þess að lengja kennaranámið í fjögur ár úr þremur. Mér fannst að námið væri þá þegar of langt miðað við gæði og að lenging þess væri eingöngu til þess að bæta við enn fleiri gælueiningum.

En aftur að kreppunni. Er skólaganga leið út úr kreppu? Ef atvinnubótavinna er leiðin út úr kreppu (sem er langt frá því að vera vitað, hvað sem hávær hópur hámenntaðra hagfræðinga segir), þá getur svarið verið já. Borgum fólki fyrir að sitja á háskólabekk í staðinn fyrir að sitja heima á atvinnuleysisbótum. Það er alveg hugsanlegt að þetta virki, en það er líka hugsanlegt að þetta hafi engin áhrif eða geri kreppuna verri. Verst af öllu, þá getur þetta haft margvísleg neikvæð áhrif, ekki síst til lengri tíma.

Háskólanám er ekki fyrir alla. Það hentaði mér illa fyrir nærri 20 árum, aðallega sökum leti og slælegra vinnubragða. Sumir eru bara ekki nógu klárir í kollinum. Sumir eru bæði latir og andlega vanbúnir. Það er slæmt fyrir háskólana að fylla þá af fólki sem á þangað ekki erindi og hefur kannski lítinn áhuga. Það geta allir lært að syngja, en það geta ekki allir sungið, þó þeir hafi lært það. Hvað þá að þeir verði allir góðir söngvarar.

Ef gæði menntunarinnar aukast ekki og við framleiðum bara fleiri og fleiri langskólagengna fúskara, erum við þá ekki að auka líkurnar á næstu kreppu?