Eiður Alfreðsson

Blaðamennska á heimsmælikvarða!

Erill í sjúkraflutningum

Ég hef ekki hlegið svona mikið lengi. Myndin sem fylgir er snilld.

Advertisements

Menntun íslenskra kennara

Ég var að horfa á umræðuþátt um menntamál á RÚV frá því í gærkvöldi (horfa hér). Nokkuð athyglisverðar umræður og gott að vita til þess að margir virðast vera að velta þessum málum fyrir sér.

Mikið var rætt um menntun barna og unglinga á hinum ýmsu skólastigum, en nánast ekkert um menntun kennaranna sjálfra. Eins og ég hef áður minnst á, þá dundaði ég mér aðeins við kennaranám í KHÍ fyrir allmörgum árum. Þá var námið 3 ár og var bæði slakt og of langt. Í umræðum gærkvöldsins heyrðist mér að búið væri að lengja námið í 5 ár! Ég vona að mér hafi misheyrst.

Einn þátttakandi í umræðunum benti á það að góður kennari væri lykilatriði. Slíkur kennari gæti hrifið nemendur með sér í þungu námi og að sama skapi gæti lélegur kennari fælt nemendur frá léttari greinum. Þar er ég alveg sammála. Og þá er spurningin: Er jákvætt orsakasamhengi milli lengdar kennaranáms og gæða kennara? Ef ekki, þá er ekki hægt að réttlæta 5 ára nám og augljóst tækifæri til að skera niður.

Njósnaheimildir lögreglu

Siv Friðleifsdóttir skrifar grein á Vísi í dag (sjá hér) þar sem hún fjallar um þingsályktunartillögu um auknar rannsóknarheimildir lögreglu, sem hún flytur, ásamt öðrum. Greinin er í stuttu máli órökstuddur hræðsluáróður um að lífið á Íslandi sé hættulegra en áður og meira um skiplagða glæpastarfsemi og þess vegna verði að leyfa lögreglunni að njósna um almenna borgara. Til að gera þetta enn svakalegra talar Siv um ólögleg fíkniefni og mansal.

Hér fara sama tveir hættulegir hlutir. Annars vegar þörf stjórnmálamanna til að breyta lögum og hins vegar tilhneiging löggæslumanna til að sækjast eftir meira valdi.

Málið snýst um tvær meginspurningar:

  1. Býr hinn almenni borgari við minna öryggi nú en áður?
  2. Auka auknar rannsóknarheimildir lögreglu öryggið?

Í hvorugu tilfellinu er nægilegt að styðjast við almenna tilfinningu fólks fyrir því hvað er að gerast. Það er vel þekkt mannsheilinn á mjög erfitt með að meta áhættu og flest fólk hefur mjög brenglaða hugmynd um þær hættur sem steðja að í daglegu lífi. Þetta er auðvelt að spila á með hræðsluáróðri um glæpagengi og hryðjuverkamenn. Það er ósköp auðvelt að stressa sig yfir fréttum af pólskum handrukkurum nútímans en gleyma því að brjálaður Íslendingur réðst á konu í Þverholtinu með skrúfjárni árið 1981 (sjá hér) og Dýrfirðingur, búsettur í Öræfasveit, rændi tveimur frönskum stúlkum og drap aðra þeirra á Skeiðarársandi árið 1982 (sjá hér).

Ef óháðar rannsóknir sýna að svarið við báðum ofangreindum spurningum er , þá er sjálfsagt að hugleiða lagasetningu. Annars ekki.

Ein meginástæða Hrunsins var sú að hagsmunaaðilar gátu stjórnað því hvaða lög og reglur giltu í landinu. Lögreglan er hagsmunaaðili í þessu máli og það er hættulegt að láta sjónarmið hennar stjórna því hvort hún fái að njósna um almenna borgara eða ekki. Tillögur sem þessar sýna glöggt að Alþingi hefur lítið lært og að vinnubrögð þess eru enn til skammar.

Óglatt í bíó – 5 stjörnur

Ég fór að sjá Inside Job í gærkvöldi. Mér varð óglatt á að horfa á viðtölin við siðleysingjana.

Hagfræði/hagfræðingar og Obama forseti komu mjög illa út úr myndinni. Hagfræðin leit út eins og ófyndinn brandari (sem hún er að mestu í augnablikinu) og hagfræðisnillingarnir frá stóru amerísku háskólunum voru sérstaklega slepjulegir – Mishkin er augljóslega hálfviti eða skúrkur (eða bæði). Obama ætlar sér greinilega ekki að breytan neinu og hefur nú umkringt sig sömu ráðgjöfunum og settu allt á hausinn fyrir korteri.

Niðurdrepandi.

Eitt ljósið í myrkrinu var Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, sem Íslendingar hata svo mjög fyrir að hafa dregið þá upp úr drullunni. Strauss-Kahn talaði af viti og Raghuram Rajan virtist hafa bein í nefinu.

Skylduáhorf.

Áskorun til Óla forseta

Ef nægilega margir Íslendingar skora á Óla forseta að gefa ekki kost á sér aftur, þarf hann þá ekki að fara eftir því til að vera samkvæmur sjálfur sér?

Fáfræðingar og erfðabreyttar lífverur

Nýlega lögðu átta þingmenn fram þingsályktunartillögu (sjá hér) um að banna skuli alla útiræktun á erfðabreyttum lífverum. Í kjölfarið sendu 33 vísindamenn (og Kári Stefánsson) bréf til Alþingis (sjá hér) þar sem segir meðal annars:

Við teljum að tillaga þessi sé með öllu óþörf enda gilda þegar ströng lög og reglur um erfðabreyttar lífverur á Íslandi. Meðal annars starfar sérstök nefnd sem fer yfir hverja erfðabreytingu fyrir sig og metur hana og áhættuna af henni í hverju tilviki á vísindalegum forsendum. Engin ástæða er til að banna útiræktun erfðabreyttra lífvera þegar engin hætta er talin stafa af slíkri ræktun. Þær áhyggjur sem lýst er í tillögunni eru byggðar að verulegu leyti á misskilningi, vanþekkingu, fordómum eða hagsmunum þeirra sem telja erfðabreyttar lífverur ógna sér eða sinni starfsemi.

Og einnig:

Það er áhyggjuefni að greinargerðin með tillögunni virðist bæði vera illa unnin og að mestu leyti röng. Höfundar hennar virðast hafa mjög takmarkaðan skilning á líffræði, þróunarfræði, erfðafræði eða eðli erfðabreyttra lífvera. Í þingsályktunartillögunni er hugtökum ruglað saman auk þess sem hún styðst við álit einstaklinga sem ekki verður séð að hafi neina faglega þekkingu á því sviði sem tillagan fjallar um.

Mikið var að hinn íslenski vísindaheimur vaknar! Ofstækisfullir fáfræðingar fá venjulega að vaða uppi með bull og þvælu og þeir sem raunverulega vita um hvað málið snýst þegja þunnu hljóði.

Þetta vekur upp spurningar um það hverjir sitja á Alþingi og hvaða þekkingu þeir hafa yfirleitt til að smíða lög sem þessi. Ég hef mínar efasemdir um að t.d. Árni Johnsen geti myndað sér upplýsta skoðun (almennt og alveg sérstaklega í málum af þessu tagi).

Lítum aðeins á flutningsmenn tillögunnar (heimildir fengnar af vef Alþingis):
Þuríður Backman. Hjúkrunarfræðingur.
Atli Gíslason. Lögfræðingur.
Mörður Árnason. Íslenskufræðingur og blaðamaður.
Ólafur Þór Gunnarsson. Læknir.
Þráinn Bertalsson. Kvikmyndaleikstjóri og rithöfundur.
Þór Saari. Hagfræðingur.
Birgitta Jónsdóttir. Fjöllistakona, rithöfundur, ljóðskáld, þýðandi og myndlistarmaður.
Ólína Þorvarðardóttir. Íslensku- og þjóðfræðingur. Kennari.

Nú er vissulega hægt að hafa djúpa þekkingu á ýmsum fræðum án þess að hafa numið þau við háskóla. En af tillögunni verður ekki ráðið að áttmenningarnir hafi meira en yfirborðskenndan skilning á vísindilegri hugsun. Það kemur ekki á óvart ef viðkomandi er menntaður í lög-, hag- eða viðskiptafræði, enda ekki vísindi, en það eru sérstök vonbrigði að hjúkrunarfræðingurinn og læknirinn sjái ekki í gegnum þokuna. Maður skyldi ætla að hjúkkur geti a.m.k. lesið vísindapappíra og áttað sig á gæðum þeirra og það er náttúrulega hneyksli ef læknar eru ófærir um það. (Rétt er nú samt að hafa í huga að menntunin ein útrýmir ekki bábilju í mannshuganum. Þekkt dæmi um það eru læknirinn og loddarinn Hallgrímur Magnússon og íþróttafræðingurinn og loddarinn Jónína Benediktsdóttir, sem bæði hafa fengið að kukla í friði allt of lengi).

Er líklegt að áttmenningarnir hafi allir skilið málsgreinar eins og:

Erfðatækni spannar aftur á móti ýmsar nýlegar tæknilegar og efnafræðilegar aðferðir við að koma t.d. svokallaðri genasmíð (yfirleitt samsett úr genaferju, aðfluttu geni, stýriröð og merkigeni sem veldur ónæmi gegn ákveðnu sýklalyfi) í gegnum frumuvegg lífveru til þess að splæsa henni við erfðamengi frumunnar sem tekur við henni.

Eða:

Þau gen sem fyrir eru í síðarnefndu lífverunni getur „aðkomugenið“ stokkað upp og þar með breytt verkaskiptingu þeirra og náttúrulegri genatjáningu lífverunnar.

Nei.

Hvað vakir þá fyrir flutningsmönnunum? Svarið er einfalt. Þau eru drifin áfram af tilfinningum og hugsjónum sem blinda þeim sýn. Þau hafa einhverja óljósa tilfinningu um að þetta sé ónáttúrulegt og þar af leiðandi hugsanlega hættulegt. Alveg eins og flestir andstæðingar hvalveiða eru það af tilfinningalegum ástæðum (hvalir eru svo mikilfenglegir, gáfaðir, tilfinningríkir, o.s.frv.) en viðurkenna það ekki, heldur flagga stanslaust handónýtum rannsóknum og vitna í lélega vísindamenn til að “sanna” að þeir hafi á réttu að standa.

Ég ber virðingu fyrir tilfinningum annarra og ef menn hafa tilfinningalegar ástæður til að vera með eða á móti einhverju, þá er það bara í góðu lagi. En menn eiga að hafa kjark til að viðurkenna það en ekki fara af stað með allt-í-plati vísindalega umræðu.

Í gegnum tíðina hefur verið lítið um sjálfstæða hugsun á Alþingi og flutningsmenn virðast ekki ætla sér að breyta því. Það að einhverjar aðrar þjóðir hafi bannað þessa ræktun, segir okkur ekkert um hvernig þær komust að þeirri niðurstöðu. Þingsalir heimsins eru fullir af fáfræðingum sem eru æstir í að banna það sem ekki rímar við þeirra eigin hugsjónir, burtséð frá staðreyndum. Það er raunar einkenni þingmanna að þeir eru fullir af hugsjónum, sérstaklega í upphafi ferilsins, og þeir eiga erfitt með að hugsa skýrt um mál sem tengjast hugsjónunum sterkt.

Helstu rök flutningsmanna eru þau að hér eigi varúðarreglan við. Varúðarreglan er vandmeðfarið tól. Fáfræðingar vilja meina að henni eigi að beita “ef það er ekki hægt að sanna það algjörlega að þetta sé hættulaust”. Velkomin í raunveruleikann! Nánast ekkert í lífinu er svart/hvítt. Bíllinn þinn gæti sprungið í loft upp. Þú gætir dottið niður stigann. Þessi rökleysa er bara þreytt lumma sem fólk grípur til þegar það skilur ekki hvað það er að tala um eða hefur lítil rök á bak við sig. Þetta tiltekna mál snýst um áhættustýringu og áættustýring felst nánast alltaf í því að minnka líkurnar á að illa fari, en ekki að útiloka áhættuna algjörlega. Rökhugsandi fólk bannar ekki gúmmístígvél vegna þess að einhver gæti runnið á hausinn í hálku. Það bannar ekki áburð vegna þess að einhver gæti notað hann til að sprengja upp Alþingi. Það bannar ekki kjarnorkuver vegna þess að það er pínulítil hætta á því að geislavirkni sleppi út í andrúmsloftið. Það hættir ekki að reyna að koma í veg fyrir hitnun jarðar vegna þess að það er agnarsmár möguleiki á því að það gæti leitt af sér eitthvað ennþá verra. Það trúir ekki á guð vegna þess að það er ekki hægt að afsanna tilvist hans.

Þegar líkurnar á óhappi eða mistökum eru undir ákveðnum mörkum, þá segjum við að áhættan sé ásættanleg. Það má deila um hvar mörkin liggja en það verður að gera með tilliti til afleiðinganna. Í þessu tilfelli er spurningin: Hvað gerist ef breytt erfðaefni “sleppur út í náttúruna” (gleymum því í bili að fæstir sem hafa áhyggjur af þessu hafa nokkra hugmynd um hvað þetta þýðir)? Svarið er að það bendir ekkert til þess að nokkuð neikvætt myndi gerast. Þegar ég segi “ekkert”, þá á ég að sjálfsögðu við “nánast ekkert” – það er nefninlega alltaf einhver efi en stundum er hann svo agnarsmár að hann hefur engin áhrif á ákvörðunina. Hinar ægilegu afleiðingar útiræktunar erfðabreyttra lífvera eru að mestu vísindaskáldskapur en ekki sannreynd vísindi. Hin hliðin er síðan hverjar líkurnar á óhappi eru og þær eru svo smáar að við þurfum ekki að hafa áhyggjur. Gallinn er sá að fáfræðingar skilja ekki muninn á 1% eða 0,0001% – í þeirra huga er þetta sama talan og merkir “litlar líkur”. Þeirra orðaforði inniheldur ekki hugtakið “hverfandi líkur”.

Í þingsályktunartillögunni segir:

Í því samhengi er rétt að benda á varúðarregluna í Ríó-yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1992 en hún kveður á um að ekki skuli ráðast í framkvæmd sem kunni að hafa alvarleg áhrif á umhverfið nema að sýnt sé fram á að hún hafi ekki slík áhrif.

Í huga fáfræðingsins verður aldrei, með fullnægjandi hætti, “sýnt fram á að hún hafi ekki slík áhrif”. Skottulæknirinn hættir aldrei að trúa á smáskammtalækningar, nálastungur og reikiheilun, því að þrátt fyrir að allar alvöru stúdíur sýni fram á að þessir hlutir virka jafn vel/illa og lyfleysa (placebo), þá sýnir þeirra eigin tilfinning og “reynsla” hið gagnstæða – það er alltaf “möguleiki” að þetta hafi einhver alvöru áhrif. Hinn trúaði sannfærist aldrei um að guð sé ekki til, vegna þess að það er aldrei hægt að “afsanna” tilvist guðs. Sumir þeirra trúa því bókstaflega að æðri máttarvöld hafi skapað jörðina og lífið sem þar þrífst og þeirra rök snúast aðallega um það að þróunarkenningin sé “bara kenning”, sem er alveg rétt en opinberar um leið algert skilingsleysi á vísindalegri hugsun.

Nú er vitað að margir flutningsmanna eru hlynntir endurskoðun Stjórnarskrárinnar og sumir þeirra hafa talað hátt um léleg vinnubrögð á Alþingi. Það er augljóslega brýnt að huga að því hvernig lög eru smíðuð og hvernig vísindaleg rök eru notuð í þeim tilgangi. Flutningsmenn ættu að líta í eigin barm og kanna hvort þeirra eigin vinnubrögð í þessu máli séu til fyrirmyndar.

Góðir Íslendingar og aðrir Sjálfstæðismenn

Á Íslandi situr ónýt ríkisstjórn sem fáir treysta.

Ef allt væri nokkurn veginn eðlilegt, þá myndi hún segja af sér. En það er ekki hægt vegna þess að þá væru “vinstri flokkarnir” að viðurkenna að þeir geti ekki stjórnað. Það má alls ekki, hvort sem það er satt eða ekki.

Ef allt væri nokkurn veginn eðlilegt, þá myndi stjórnarandstaðan bera fram vantraust og fella stjórnina. En það er ekki hægt því að það er ekki nógu langt síðan sauð upp úr spillingarpottinum þeirra Sjalla og Frammara. Ólyktin er ennþá í loftinu. Fólk er ekki alveg búið að gleyma og gæti barasta kosið eitthvað annað. Jafnvel fólk sem er ekki fjórflokksbundið. Það er stórhættulegt og má alls ekki.

Flokkar, flokkar, flokkar, …

Skítt með hvað er best fyrir þjóðina.

Er ekki lýðflokksræðið dásamlegt?