Enn ein ómarktæk verðkönnun

by eiduralfredsson

Í fréttum RÚV í gær var fjallað um verðkönnun sem fréttastofan gerði. Borið var saman verð á nokkrum hlutum í apótekum á Íslandi og Bretlandi og sagt að í flestum tilfellum hafi munurinn verið lítill.

Ekki veit ég hvaðan tölurnar koma eða hvað er nákvæmlega verið að bera saman en þetta segir manni ekkert um hvar raunverulega er ódýrast að versla og eins og venja er í íslenskum verðkönnunum, kemur Ísland miklu betur út en minn raunveruleiki segir.

Dæmi
Meðalverð á íbúfeni er í fréttinni sagt 541 króna á Íslandi en 531 króna í Bretlandi.

Ibuprofen er einfalt efni sem kostar lítið í framleiðslu. Ég veit ekki hvernig það er á Íslandi, en hér í Bretlandi er hægt að kaupa þetta fyrir nánast ekki neitt. Ef maður vill fá fallegar pakkningar, þá kostar það talsvert meira. Sama lyf, mismunandi umbúðir. Ég get líka labbað út í hvaða búð sem er og keypt þetta. Engin þörf á að fara í apótek.

Í Boots kosta 16 töflur af 200mg ibuprofen £0.36, þ.e. um 65 krónur (sjá hér). Í Tesco kostar það sama £0.28, þ.e. um 50 krónur (sjá hér). Ég miða hér við 180 ISK/GBP. Athugið að þetta er þrátt fyrir gengishrunið.

Þetta er stóri munurinn á Íslandi og Bretlandi. Hér er hægt að versla ódýrt, ef maður vill. Það virðist bara aldrei koma fram í íslenskum verðkönnunum.

Advertisements