Menntun er ekki kakómalt

by eiduralfredsson

Þorgerður Katrín var í viðtali á morgunþætti Bylgjunnar í gær (hlusta hér). Umræðuefnið var menntaskólinn Hraðbraut og einkavæðing skólakerfisins.

Þorgerður sagði meðal annars:

[…] en við erum líka með frábær dæmi innan til að mynda menntakerfisins, sem að ég vil meina að vinstri flokkarnir hafi meðal annars barist gegn í löggjöf. Við getum nefnt á grunnskólastiginu Hjallastefnan [sic], sem hefur aukið valkosti foreldra og nemenda innan skólakerfisins gríðarlega.

Það hljómar ágætlega að fjölga valkostum, en hvað þýðir það í raun og veru? Það er sjálfsagt að selja 35 tegundir af kakómalti og leyfa fólki að velja eftir smekk, en ekki er allt kakómalt. Í mikilvægum málum er ekkert gagn að því að hafa val ef maður getur ekki tekið upplýsta ákvörðun.

Er ekki bara fínt að leyfa fólki að fara til hnykk”lækna” eða í nálastungur eða taka smáskammta”lyf” í staðinn fyrir að fara til alvöru lækna og taka alvöru lyf? Jú, það er fínt, á meðan skattgreiðendur borga ekki fyrir það og heilbrigðiskerfið tekur ekki þátt. Af hverju? Vegna þess að þessar “óhefðbundnu” prívat”lækningar” virka ekki. Um leið og traustar sannanir liggja fyrir um að virknin sé jafn góð eða betri en alvöru lækningar, þá hætta þessir hlutir að vera óhefðbundnir og breytast í hefðbundnar lækningar og eiga þá heima í heilbrigðiskerfinu. Þeir sem velja sér skottulækna eru að taka óupplýsta ákvörðun um eigin heilsu og ríkinu ber siðferðisleg skylda til að taka ekki beinan þátt í því.

Það sama gildir um menntun. Það er engin ástæða að banna fólki að eyða eigin fé í námskeið í hverju sem það vill. Fólk gerir það nú þegar. Ég hef út af fyrir sig ekkert á móti því að skólar séu einkareknir, en það hlýtur að vera lágmarkskrafa að útkoman sé a.m.k. jafn góð og hjá þeim opinberu. Í ofangreindu viðtali var hins vegar fullyrt að nemendur Hraðbrautar hafi staðið sig verr en aðrir í Háskóla Íslands. Ef rétt er þá er það eiginlega meiri skandall en peningamál skólans. Mantra einkavæðingarpostulanna er að “markaðurinn” sjáí um að halda gæðunum uppi, en það er augljóslega alveg þveröfugt í þessu tilfelli. Þorgerður var spurð að því hver græddi á Hraðbraut aðrir en eigendur skólans og sagði þá:

[…] mér skilst að það hafi verið gerð könnun meðal nemenda og meðal kennara og ánægjan er mjög mikil með skólann.

Það er mjög sorglegt að heyra fyrrum menntamálaráðherra tala svona. Ég þekki það af eigin reynslu að í einkanámi er þrýstingur á að halda nemendum ánægðum með því að hafa námið létt. Það er augljóst mál að nemendur Hraðbrautar (eða foreldrar þeirra) eru að borga fyrir að stytta sér leið að prófskírteini, en ekki að kaupa sér betri menntun. En það getur ekki verið meginmarkmið menntunar að nemendur séu rosalega ánægðir. Ánægðir með hvað?

Advertisements