Vetnisknúin endurskoðunarvél

by eiduralfredsson

PricewaterhouseCoopers hafa nú viðurkennt það sem marga hefur lengi grunað. Skv. Mogganum kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu að þó að fyrirtækið kvitti undir einhverja pappíra frá bönkum eða öðrum, þá sé það ekki sönnun þess að pappírarnir hafi verið í lagi. Þetta sé allt tómur misskilningur. Endurskoðun snúist ekki um að athuga neitt eða skoða (þrátt fyrir nafnið), heldur eingöngu um að fullnægja formsatriðum. Sá sem sendir inn pappíra til endurskoðunar á að endurskoða þá sjálfur áður en hann sendir þá inn til endurskoðandans. Þannig er tryggt að kerfið sé skilvirkt og að sem fæstir verði fyrir vonbrigðum. PwC er eitt fremsta endurskoðunarfyrirtæki heimsins og því má ætla að aðrir endurskoðendur séu almennt á sama máli. Þeir hafa í það minnsta ekki andmælt þessari túlkun enn.

Það er víst talsvert af atvinnulausum hugvitsmönnum á Íslandi. Geta þeir ekki smíðað endurskoðunarvél sem stimplar sjálfkrafa alla pappíra sem þarf að “skoða”. Hún gæti gengið fyrir vetni og verið mjög umhverfisvæn. Þetta gæti skapað fjölda manna atvinnu og vakið heimsathygli.

Já, þetta er í góðu lagi. Þú leggur bara inn á reikninginn, er það ekki?

Advertisements