Sófaþjálfarar

by eiduralfredsson

Sam Allardyce var rekinn í gær frá Blackburn Rovers. Liðið heldur eflaust að þeim gangi mikið betur undir stjórn einhvers annars. Þetta gerist nokkuð reglulega. Lið sem hafa “næstum því” unnið titil ráða nýjan þjálfara til að þeir komist nú örugglega alla leið næst. Ef liðum gengur illa er þjálfaranum kennt um og annar fenginn í staðinn. Stuðingsmönnum og sófaþjálfurum finnst þetta mjög góð leið til að ná árangri.

Mér finnst þetta alltaf jafn fyndið. Það er ekkert augljóst samhengi milli þess hver þjálfarinn er og hversu vel liðinu gengur. Líklegra er að þegar þjálfara gengur einu sinni vel, þá er hann líklegri til að fá vinnu hjá góðu liði, sem aftur er líklegra til að vinna titla. Þetta þýðir ekki að allir þjálfarar séu jafn góðir/vondir, eingöngu að áhrif þeirra á lið atvinnumanna eru stórlega ofmetin.

Fyndnast er þetta þegar kemur að stórmótum. Á 4 ára fresti sannfærast Englendingar um að nýjasti þjálfarinn færi þeim heimsmeistaratitilinn. Allt sem við gerum er sambland af heppni og hæfileikum í mismunandi hlutföllum. Þetta á líka við um íþróttir. Skák og langhlaup eru að mestum hluta hæfileikar og heppni hefur ekki mikil áhrif. Þetta þýðir að góður langhlaupari vinnur lélegan nánast alltaf og það sama gildir um skákmenn. Það þýðir líka að þeir þurfa ekki að keppa mjög oft til að komast að hinu sanna.

Í knattspyrnu hefur heppni miklu meira að segja. Þetta þýðir að lélegt lið vinnur gott lið tiltölulega oft. Til að komast að því hvaða lið er best, verður að spila mjög marga leiki (sjá hér). Þess vegna segir það okkur nánast ekkert að Englendingar hafi orðið heimsmeistarar árið 1966 eða að Brasilíumenn hafi unnið oftar en nokkuð annað lið. Heimsmeistarakeppnin á meira skylt við Eurovision en hæfileikakeppni. Deildarkeppnir, eins og enska úrvalsdeildin, segja okkur meira. Þar eru miklu fleiri leikir og bestu liðin eru líklegri til að vera efst. Leikirnir þyrftu þó að vera margfalt fleiri til að við gætum virkilega sagt hver er bestur, en það er erfitt í praksís (og yrði óbærilegt fyrir sjónvarpsáhorfendur).

Advertisements