PWC borgi hrunið

by eiduralfredsson

Fjölmiðlar greina frá Norskri skýrslu sem var unnin fyrir Sérstakan (sjá t.d. hér). Þar kemur fram að endurskoðendur PricewaterhouseCoopers hafi hjálpað eigendum bankanna að hreinsa þá að innan. Þetta var augljóst mál, en núna er það skjalfest.

Á hinum íslenska vef PwC kemur m.a. fram að:

 • PricewaterhouseCoopers skal tryggja óhæði og trúverðugleika í störfum sínum.
 • PricewaterhouseCoopers veitir ávallt bestu faglegu þjónustu sem völ er á.

Fyrirtækið hefur líka sett sér siðareglur, ofan á þau lög og reglur sem það vinnur eftir. Þar segir m.a.:

 • Að starfa sem fagfólk. Stunda viðskipti af heilindum. Hafa í heiðri orðspor viðskiptavina okkar sem og okkar eigið. Koma fram við fólk og umhverfið af virðingu. Aðhafast af félagslegri ábyrgð. Starfa saman og huga að samkvæmt hverju við störfum. Hugleiða siðferðislegar hliðar starfs okkar. Þetta er connected thinking, dregið fram í siðareglum okkar.
 • Þegar við höldum fyrirlestur fyrir áheyrendur sem mega ætla að við séum fulltrúar PwC, þá látum við álit PwC í ljós en ekki okkar eigið álit.
 • Við notum öll verðmæti sem tilheyra PwC og viðskiptavinum, á ábyrgan hátt og aðeins í löglegum og leyfilegum tilgangi. Þetta gildir jafnt um áþreifanleg verðmæti sem eignarrétt eða rafræn verðmæti.
 • Við bjóðum aðeins þá þjónustu sem við getum veitt og stöndum við skuldbindingar okkar.
 • Við hvorki þiggjum né greiðum mútur.
 • Við erum ábyrgir þegnar og öll okkar framkoma er í samræmi við lög, venjur og siði þess þjóðfélags sem við störfum í og stuðlum að framþróun þess.
 • Við styðjum alþjóðlega og innlenda viðleitni til að útrýma spillingu og glæpsamlegri fjármálastarfsemi.
 • Brot á siðareglum, starfsreglum eða stefnu PwC sæta viðurlögum og geta leitt til brottrekstrar úr starfi. Viðurlög vegna agabrots beinast einnig að þeim sem valda því, samþykkja brotið eða hafa vitneskju um það, en grípa ekki strax til viðeigandi ráðstafana.
 • Við störfum í anda samvinnu PwC fyrirtækjanna og stefnum að sameiginlegum viðskiptamarkmiðum. Í álitamálum varðandi viðskiptasiðferði eða alþjóðleg verkefni ber ávallt að fylgja settum reglum í því landi sem reksturinn er í. Ef við teljum úrlausn ekki viðunandi þar verðum við að leita lausna í heimalandi okkar. Málið verður síðan rætt milli stjórnenda í hlutaðeigandi löndum.

Fögur orð en augljóslega lítið annað.

Það hlýtur að liggja beint við að fara í mál við PwC til að endurheimta það fé sem tapaðist með þessum hætti. Svo virðist sem erfitt geti verið að ná í féð frá hrunverjum sjálfum en PwC er, að margra mati, bæði “virt” og “alþjóðlegt” og hlýtur að geta staðið undir ábyrgðinni á raunverulegan hátt.

Ef það gerist ekki, þá hljótum við að spyrja okkur:

 1. Til hvers í fjandanum er endurskoðun? Ef hún er eingöngu til að stimpla bókhaldið eins og það er, þá er nú bara heiðarlegra og ódýrara að sleppa henni.
 2. Hver er ábyrgð endurskoðenda og hvernig er henni framfylgt? Eina leiðin til að framkalla alvöru ábyrgð er að gera endurskoðendur ábyrga fyrir því fjárhagstjóni sem leiðir af gjörðum þeirra eða skorti þar á.
 3. Hvað merkir það að vera “alþjóðlegt” fyrirtæki? Eru það eingöngu vörumerki og hagnaður sem hnattvæðast eða nær það líka yfir ábyrgð?
Advertisements