Óvinir nútímans

by eiduralfredsson

Útgefendur og dreifendur tónlistar voru í valdastöðu ekki fyrir löngu. Það var dýrt að taka upp, dýrt að framleiða, dýrt að auglýsa og dýrt að dreifa. Í þessum heimi voru útgefendur og dreifendur nauðsynlegir.

Með Internetinu, Veraldarvefnum og nokkrum öðrum snjöllum uppfinningum snerist þetta við á nokkrum árum. Það sem áður var dýrt var orðið ódýrt. Eftir sat útblásin maskína útgefenda og dreifingaraðila með úrelt kerfi sem virkaði ekki lengur. Þar sem þeir höfðu áður stjórn ríkti nú stjórnleysi. Hlutverk þeirra var breytt og að mörgu leyti var þörfin fyrir þá horfin. En í stað þess að fylgja fordæmi loftskeytamanna og finna upp leiðir til að lifa með nýjum veruleika, ákváðu þeir að fara í stríð við nútímann. Stríðið stendur enn en nútíminn er hægt og bítandi að sigra. Helsta ástæða fyrir því að stríðinu er ekki lokið er að óvinir nútímans hafa digra sjóði og eru vel tengdir inn í önnur forn valdakerfi.

Nú er hafið annað stríð í sama stíl, þó að vígvöllurinn sé annar. Hvað sem mönnum finnst um Wikileaks og réttmæti þess að birta sendiráðspóstana, þá er ljóst að hér eigast við tvennir tímar. Fulltrúar gamla tímans eru stjórnmálamenn og kerfiskallar hinna ýmsu landa, auk lobbýista stórfyrirtækja og annarra sérhagsmuna. Í þeirra heimi eiga allar upplýsingar og ákvarðanir að vera leyndó, nema sérstaklega sé kveðið á um annað. Leyndarmálin eru verslunarvara. Opinberlega tala þeir um opna stjórnsýslu og aukið eftirlit með sjálfum sér, en innan hópsins er þögult samráð um hið gagnstæða.

Nútíminn hefur reynst þessum mönnum bæði blessun og bölvun. Hann hefur margfaldað magn leyndarmála í umferð, sem er mjög gott í augum þeirra sem trúa á kökukenningu Péturs Fjárhirðis og Hannesar Hólmsteins. Stærri leyndarmálskaka = fleiri leyndarmál fyrir alla. Allir græða. Gallinn er sá að allt þetta magn leyndarmála virkar á plottarana eins og barnaklám á biskupa. Þeir ráða bara ekkert við sig og dánlóda og dánlóda upplýsingakláminu þangað til að harði diskurinn er fullur. Og þá þarf fleiri harða diska. Og hraðari Internettengingu. Og síðan er ekkert varið í að rúnka sér yfir þessu einn og þá er besta ráðið að finna aðra rúnkara sem fíla sama stöffið og öpplóda kláminu í miðlægan gagnagrunn svo allir upplýsingarúnkarar heimsins geti slegist í leikinn. En samt þarf að passa að enginn komist í þetta sem ekki má sjá, því að þá fatta allir af hverju hægri höndin er með meira sigg en sú vinstri (eða öfugt). Og þá þarf að hóta öllum hinum rúnkurunum öllu illu ef þeir kjafta frá og setja upp stór og dýr kerfi til að halda utan um leyndarmálin. Allt í þágu almennings, að sjálfsögðu.

Þetta er ekki sjálfbært kerfi, en óvinir nútímans munu ekki gefast upp auðveldlega. Þeirra fyrstu viðbrögð við sendiráðspóstunum eru að taka nokkra Göbbels-snúninga [reductio ad Goebbelsum] og pumpa út áróðri um að lífi fólks sé stofnað í hættu og að hagsmunum almennings sé ógnað. Jafnframt eru lobbýistarnir teknir á teppið og þeim hótað að þeir verði ekki uppáhalds lengur ef þeir komi nálægt Wikileaks. Svo verða augljóslega málshöfðanir, skemmdarverk og alls kyns hundakúnstir í framhaldinu, en á endanum verður fortíðin að játa sig sigraða. Hún getur ekki barið höfðinu við steininn endalaust. Steinninn holar höfuðið.

Advertisements