Grænmeti og ávextir

by eiduralfredsson

The Guardian greinir frá niðurstöðum rannsóknar sem birtust í dag í the British Journal of Cancer. Niðurstöðurnar eru í stuttu máli að neysla grænmetis og ávaxta hefur lítil, ef nokkur, áhrif á líkurnar á því að fá krabbamein. Þetta fær aukið vægi vegna gæða og stærðar rannsóknarinnar og aðferðarfræðinnar sem notuð var.

Þetta er áhugavert í ljósi þess að okkur hefur lengi verið ráðlagt að borða meira af grænmeti og ávöxtum, m.a. vegna þess að það geti minnkað líkurnar á krabbameini. Lýðheilsustöð segir t.d. hér [leturbreytingar eru mínar]:

Rífleg neysla grænmetis og ávaxta virðist minnka líkur á hjarta- og æðasjúkdómum, ýmsum tegundum krabbameina, sykursýki af gerð 2 og offitu.

Krabbameinsfélagið stóð, ásamt öðrum, að gerð veggspjalds sem hvetur til aukinnar neyslu, væntanlega vegna þess að félagið telur hana gagnlega í baráttunni gegn krabbameini.

Landlæknir segir hér:

Fimm hundruð grömm af grænmeti og ávöxtum á dag minnka líkur á hjartasjúkdómum og mörgum krabbameinum.

Þetta er að sjálfsögðu ekki sér-íslenskur boðskapur, heldur er hann tekinn frá sambærilegum ráðleggingum í mörgum öðrum ríkjum, sér í lagi vestrænum. Hér í Bretlandi er five-a-day boðskapurinn predikaður hvarvetna og sama saga er víðast hvar í Evrópu.

En ef þessar ráðleggingar eru byggðar á sandi, hvernig getum við treyst öðrum ráðleggingum opinberra aðila? Er hugsanlegt að þær séu jafn ótraustar? Hvernig vitum við að grænmeti og ávextir hjálpi til að koma í veg fyrir offitu og hjartasjúkdóma? Hvernig vitum við að “hörð fita” sé óholl og við ættum að minnka neyslu hennar? Er eitthvað gagn að lýsi? Eru fæðubótarefni óholl?

Svörin við öllum þessum spurningum liggja í eðli þeirra rannsókna sem gerðar hafa verið. Í sumum tilfellum hafa fáar rannsóknir verið gerðar og aðferðafræðin slök og oft eru niðurstöður rannsókna á tilraunastofum ranglega yfirfærðar í virkni í mönnum. Þetta er t.d. raunin með flest fæðubótarefni. En meginvandmálið er að það er mjög dýrt og tímafrekt að komast að hinu sanna. Faraldsfræði (epidemiology) er helsta tólið sem notað er en það er afar erfitt að fá afgerandi svör með því. Það eru einfaldlega of margir samspilandi þættir og oftast ómögulegt að einangra þann sem viðkomandi hefur áhuga á. Sem dæmi er mjög erfitt að svara því hver áhrif aukinnar neyslu fitu eru. Ef ég borða meiri fitu, þá er ég jafnframt (oftast) að borða minna af kolvetnum og/eða próteinum. Hverjar sem afleiðingarnar eru, þá er ekki hægt að segja með vissu hvort þær eru vegna meiri fituneyslu eða minni kolvetnaneyslu eða minni próteinneyslu eða þessu öllu saman. Það er líka ómögulegt að skrá niður nákvæmlega hvað ég borða mikið af hverju yfir langan tíma. Margar slíkar rannsóknir byggja á því að fólk skráir niður liðna atburði eftir minni, sem er augljóslega meingölluð leið.

Æskilegast væri að nota traustari rannsóknaraðferðir en eðli vandmálsins og kostnaður kemur í veg fyrir það í flestum tilfellum. Við sitjum því uppi með mikið magn af rannsóknarniðurstöðum sem í flestum tilfellum segja okkur ekkert afgerandi um hvað er hollt og hvað óhollt. Einu skýru undantekningarnar eru um tóbaksreykingar og áfengisneyslu. Við ættum því að taka öllum ráðleggingum um mataræði og heilsufar með miklum fyrirvara, sama hvaðan þær koma.

Advertisements