Djöfullinn sjálfur

by eiduralfredsson

Það flæðir hratt undan Kross-Gunnari og líklega fáir sem “trúa” á sakleysi hans aðrir en heilaþvegnir Krossarar. Þeir virðast margir þjást af afbrigði af Stokkhólmsheilkenni. Það hljómar fáránlega en nokkrar konur hafa líst því hvernig þeim þykir svo óskaplega vænt um manninn sem níddist á þeim. Mig grunar að kúgunin hafi náð hæðum sem við eigum erfitt með að ímynda okkur.

Þetta er ekkert nýtt. Margir svona söfnuðir virðast snúast mest um persónu leiðtogans og skilyrðislausa undirgefni meðlima. Það er ætlast til þess að þeir verji söfnuðinn og leiðtogann með kjafti og klóm “þegar á hann er ráðist”. Þetta er ein ástæða þess að það ætti að hafa sérstakt eftirlit með trúarsöfnuðum, hvort sem þeir eru ríkisreknir eður ei. [Reyndar minnir þetta óneitanlega á Davíð Oddsson og Sjálfstæðisflokkinn. Það mætti e.t.v. skilgreina stjórnmálaflokka með sama hætti.]

En sjálfur meistari hins merkingarlausa orðs sér á endanum að hann getur ekki kjaftað sig út úr þessu. Ég spá því að þá verði Djöfullinn sjálfur kallaður til leiks. Honum stóð ógn af kærleiksboðskap Krosshöfðingjans og lagði fyrir hann gildrur. Gunnar man ekkert eftir þessum atburðum, en skýringin er að þar var Myrkrahöfðinginn að verki. Hann blindaði honum sýn og fjarstýrði þuklandi höndunum. Þetta er eina rökrétta skýringin, því ekki getum við trúað því að maður sem er jafn nærri guði og Gunnar geri slíka hluti án andsetningar.

Advertisements