Ég skil ekki

by eiduralfredsson

Ég sá The Social Network um daginn. Stórgóð mynd sem fjallar um það hvernig Facebook varð til. Þar kemur fram að Mark Zuckerberg, annar/einn stofnenda Facebook, sé yngsti milljarðamæringur ($) sögunnar og að Facebook sé óskaplega mikils virði (í peningum talið).

Mér varð hugsað til heimildarmyndarinnar Startup.com frá 2001. Hún fjallar um nokkra félaga sem eiga sér draum um að verða moldríkir alveg eldsnöggt með því að stofna internetfyrirtæki. Þeir eru með þokkalega hugmynd að litlu fyrirtæki en þeir telja sér trú um að þetta sé allt miklu æðislegra og merkilegra en það er í raun og veru. Þeim tekst að narra einhverja fjárfesta í að dæla peningum í fyrirtækið og ráða fullt af starfsfólki. Fyrirtækið “vex” og “vex” og allir eru ótrúlega hamingjusamir þangað til einn daginn kemur gat á blöðruna … púff! Allt farið. Eða réttara sagt: það var aldrei neitt þarna. Þetta var bara klikkun og sjálfsblekking.

Ég vann hjá litlu fyrirtæki á Íslandi á svipuðum tíma og Startup.com er tekin upp. Þar var svipuð mantra. Vaxa og vaxa. Stundum var talað um að “fara á markað”, því fyrirtækið væri svo óskaplega mikils “virði”. Þetta var fínt, lítið fyrirtæki sem ég held að hafi skilað hagnaði en það virtist á þessum tíma vera aukaatriði. Nýja hagkerfið snerist um eitthvað allt annað. Eitthvað sem ég skildi ekki.

Svona virkar Facebook á mig (og reyndar mörg svipuð fyrirtæki). Risastór blaðra sem hlýtur að springa einn daginn. Ég get alveg skilið að það sé einhvers virði að hafa svona marga notendur og það má eflaust græða á þessu, en ég skil ekki hvernig þetta gerir menn að milljarðamæringum ($). Hvað er það nákvæmlega sem er svona verðmætt? Það kostar ekkert að nota Facebook. Facebook hefur ekki fengið krónu frá mér og þó hef ég verið þar skráður í nokkur ár.

Einn vinnufélagi minn þykist skilja hvernig peningar virka. Ég viðraði þetta við hann og hann röflaði eitthvað almennt um 500 milljón manns og sló um sig með “brand value” og “market exposure” og viðlíka innantókum frösum. Það eina sem hann gat nefnt að viti voru auglýsingar, en eftir því sem ég kemst næst er mjög erfitt að hagnast á þeim. Þær standa a.m.k. ekki undir milljörðum ($). Ég er enn litlu nær.

Áður en allt fór til helvítis á Íslandi reyndi ég stundum að fá fróða menn til að útskýra fyrir mér hvernig það gæti verið að menn hefðu það svona gott. Fæstir virtust hafa spáð nokkuð í þetta en fannst bara fínt að þetta “virkaði” svona vel. Flott hús, tveir nýir bílar, fellihýsi, ný eldhúsinnrétting, stafaparkett (ekkert ódýrt rusl), hiti í gólfi, sérhannaður vaskur, 3 klósett. Þeir sem þóttust geta útskýrt þetta hljómuðu allir eins og Hannes Hólmsteinn og töluðu um að virkja sofandi fjármagn (sem hljómar ennþá eins og einhver svartigaldur í mínum eyrum), fé án hirðis o.s.frv. Aldrei neitt konkret, bara innantómt blaður, fóðrað með fínum orðum.

En ég var auðvitað bara vitlaus að skilja þetta ekki.

Nú er sama platan komin aftur á fóninn. Við þurfum vöxt. Við verðum að vaxa út úr kreppunni. Hvað eiga menn nákvæmlega við með þessu? Er takmarkið að sem flest fyrirtæki skili hagnaði og veiti sem flestum atvinnu eða eru menn að tala um að blása lífi í blöðruna sem er nýsprungin?

Advertisements