Gjaldþrot á Íslandi vs Bretlandi

by eiduralfredsson

Flestar siðmenntaðar þjóðir hafa áttað sig á því að það er samfélagslega óhollt að setja einstaklinga í skuldafangelsi. Hér er ekki átt við þá sem hafa svikið út fé – það er glæpur – heldur þá sem geta ekki greitt til baka það sem þeir hafa fengið að láni.

Ef menn koma sér í svo mikil fjárhagsleg vandræði að þeir geta ekki komið sér út úr þeim sjálfir, þá á samfélagið að hjálpa þeim út úr erfiðleikunum. Menn þurfa að sjálfsögðu að gangast undir ákveðin skilyrði, en eftir tiltekinn tíma hafa menn hreinan skjöld að og geta byrjað nýtt líf. Nákvæmlega eins og við veitum reykingamönnum og hestamönnum sömu heilbrigðisþjónustu og öðrum og á sama verði, þrátt fyrir að þeir taki aukna heilsufarsáhættu með líferni sínu og áhugamálum.

Til þess að þetta virki þurfa lánveitandi og lántakandi að skipta áhættunni á milli sín á sanngjarnan hátt. Hér í Bretlandi tíðkast almennt ekki að vinir og ættingjar ábyrgist lán. Maður fær lán út á greiðslumat og/eða með veði í fasteign sem maður á sjálfur. Lánveitandinn ber ábyrgð á að meta greiðslugetuna. Við gjaldþrot er maður í versta falli að tapa húsnæði sínu og þarf e.t.v. að greiða raunhæft hlutfall af tekjum í tiltekinn tíma (oftast 1 ár, en fer þó eftir aðstæðum). Þetta er að sjálfsögðu alvarlegt mál, en málið er gert upp milli einstaklingsins og lánadrottna hans.

Á Íslandi hefur þetta aldrei verið raunhæfur kostur fyrir almenna borgara vegna þess að lánveitendur hafa ekki tekið á sig sanngjarnan skerf af áhættunni. Henni er varpað yfir á vini og ættingja í formi sjálfskuldarábyrgða og fasteignaveða. Við gjaldþrot dregst allt þetta fólk inn í leikinn. Þess vegna er fólk að streða við að halda eignum sínum og borga botnlausar skuldir.

Að þessu leyti er ástandið svipað og t.d. í Dubai, þar sem mönnum er stungið í steininn ef þeir greiða ekki skuldir sínar en fá þær samt ekki felldar niður. Það er eiginlega heiðarlegri aðferð en sú íslenska.

Siðferðislega væri eðlilegt að afnema ábyrgðir þriðja aðila og setja sanngjörn gjaldþrotalög.

Advertisements