Stórfrétt! Þjóðkirkjan ritskoðar biblíuna!

by eiduralfredsson

Nú er ég alveg hættur að skilja. DV greinir frá því að hið heilaga orð eigi ekki alltaf við því að kenningarnefnd þjóðkirkjunnar hafi komist að þeirri niðurstöðu að tilteknir kaflar í biblíunni séu úreltir. Eftirfarandi er haft eftir Árna Svani Daníelssyni, upplýsingafulltrúa Biskupsstofu [leturbreytingar eru mínar]:

Í gegnum niðurstöðu kenningarnefndar kirkjunnar, sem fjölluðu um þessa texta og fleira, er það afstaða kirkjunnar að þeir eigi ekki við í dag. Þeir fjalla um fornan átrúnað en að þeir eiga ekki við um samkynhneigð í samtímanum og þeir eiga ekki við um samvist eða hjónaband samkynhneigðra.

Mikill er máttur kenningarnefndar að geta tekið heilagt orð og ritskoðað það.

Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir fjallar um málið hér og segir [leturbreytingar eru mínar]:

Kenningarnefnd tekur þá afstöðu að þessir ritningarstaðir standi í ákveðnu menningarlegu og trúarlegu samhengi síns tíma og beri að skilja þá út frá því. Þessir staðir fordæmi ekki samkynhneigð sem slíka og heldur ekki þá samkynhneigðu einstaklinga sem lifa í kærleiksríkri sambúð ástar og trúfesti.

Þessi texti Steinunnar er nánast orðrétt upp úr ályktun kenningarnefndar þjóðkirkjunnar sem ber heitið Þjóðkirkjan og staðfest samvist.

Hér er komin upp mjög sérstök staða því að þeir sem gagnrýna kristna trú vilja einmitt meina að biblían sé fornrit sem standi í ákveðnu menningarlegu og trúarlegu samhengi síns tíma og beri að skilja út frá því. Kenningarnefnd þjóðkirkjunnar er semsagt sammála þessu þó prestar tönnlist á því að biblían “tali inn í samtímann” og boðskapur hennar sé öðrum æðri.

Þetta er framfaraspor, en þegar kenningarnefndin heldur því fram að ógeðslegustu hommahaturskaflarnir í biblíunni “fordæmi ekki samkynhneigð sem slíka”, þá fallast mér hendur. Þetta segir mér bara það að nefndin meinar ekkert með orðum sínum. Þetta er bara leikaraskapur. “Jújú, við fílum alveg homma, maður. Ekkert mál. Páll postuli var bara eitthvað pirraður þegar hann skrifaði þetta. Hahahaha. (með lygaramerki á báðum)”.

Nefndin hefur væntanlega legið yfir þessum texta og hefði auðveldlega getað sleppt því að réttlæta viðbjóðinn, en hún gerði það ekki. Þetta er aumingjaskapur, lygi, hræsni og siðleysi.

Burtséð frá því, þá er það semsagt þannig að meðalgreindur maður getur ekki treyst því að boðskapur Biblíunnar sé augljós við lestur hennar, heldur þarf að ráðfæra sig við kenningarnefnd kirkjunnar. Þetta vandamál hlýtur að aukast með tímanum, því að eðli málsins samkvæmt verða sífellt fleiri kaflar óviðeigandi eftir því sem tímarnir breytast. Ég er hræddur um að það verði erfitt að predika uppúr biblíunni eftir tuttugu þúsund ár. Það verður ekkert viðeigandi eftir.

Þetta veldur mér sjálfum reyndar talsverðum vandræðum. Ég er þessa dagana að lesa biblíuna til að reyna að fá botn í boðskapinn. Ég sendi því eftirfarandi erindi til formanns nefndarinnar:


from Eidur Alfredsson
to karl.sigurbjornsson@kirkjan.is
date 8 September 2010 22:01
subject Fyrirspurn til kenningarnefndar

Kæri Karl,

Ég sendi þér þessa fyrirspurn sem formaður kenningarnefndar.

Ég rakst á grein í DV frá því fyrr í dag þar sem haft er eftir upplýsingafulltrúa Biskupsstofu að tilteknar greinar í biblíunni eigi ekki við lengur.

Greinin er hér:
http://www.dv.is/frettir/2010/9/8/biskupsstofa-rok-jenisar-ur-bibliunni-eiga-ekki-vid/

Þetta veldur mér umtalsverðum vandræðum. Ég er að lesa biblíuna til að reyna að skilja boðskap hennar en það er mjög erfitt ef í henni eru kaflar sem best væri að sleppa. Mér þætti vænt um ef kenningarnefnd gæti sent mér lista yfir þá kafla sem ekki eiga lengur við.

Ég vænti skjótra viðbragða.

Með fyrirfram þökk,

Eiður Alfreðsson

Ég mun birta samskiptin hér, öðrum biblíuáhugamönnum til hægðarauka.

– – –
Uppfært 9. september kl. 15.55 (BST)

Fékk svar sem svaraði ekki spurningunni:

From: Árni Svanur Daníelsson
Date: Thu, 9 Sep 2010 11:02:48 +0000
Subject: Re: Fyrirspurn til kenningarnefndar
To: Eiður Alfreðsson
Cc: Karl Sigurbjörnsson , Steinunn
Arnþrúður Björnsdóttir

Komdu sæll Eiður.

Mér var áframsend fyrirspurn þín varðandi álit kenningarnefndar sem þú
sendir í tilefni af frétt í DV í gær. Álitið er að finna á vef
kirkjuþings:

http://kirkjuthing.is/gerdir/2006/22

Þarna segir meðal annars:

„Að skilningi lútherskrar kirkju er Biblían undirstaða kenningar
kirkjunnar (sola Scriptura). Lykillinn til skilnings á Ritningunni er
Jesús Kristur og hjálpræðisverk hans (solus Christus) sem Guð veitir
mönnum af einskærri náð (sola gratia) og menn verða að taka við í trú
(sola fide). Það er verkefni guðfræðinnar og hins kristna safnaðar að
greina að það sem snertir trúargrundvöllinn sjálfan og hjálpræði
einstaklingsins, og það er varðar stundleg fyrirbæri.

Ljóst er að víða í Biblíunni, bæði í Gamla og Nýja testamentinu, er
fjallað neikvætt um mök fólks af sama kyni og hefur þeim
ritningarstöðum verið beitt gegn samkynhneigðu fólki. Sumir túlka þá
ritningarstaði þannig að þarna sé samkynhneigð fordæmd sem slík. Aðrir
telja þá ritningarstaði standa í ákveðnu menningarlegu og trúarlegu
samhengi síns tíma og beri að skilja þá út frá því. Þarna takast á
gagnstæð sjónarmið til Biblíunnar og hefðarinnar.

Að mati kenningarnefndar snerta þessir ritningarstaðir ekki
trúargrundvöllinn svo að ágreiningur um túlkun þeirra sundri einingu
kirkjunnar. Þessir staðir fordæma ekki samkynhneigð sem slíka og
heldur ekki þá einstaklinga sem lifa í kærleiksríkri sambúð ástar og
trúfesti.“

Þú finnur líka meira efni um þetta mál á
http://kirkjan.is/samkynhneigdogkirkja. Um sýn þjóðkirkjunnar á
Biblíuna getur þú lesið á vefnum trú.is
http://tru.is/stikkord/bibl%C3%ADan.

Ég vona að þetta varpi ljósi á málið. Þú skalt endilega hafa samband
ef þú hefur frekari spurningar.

Kær kveðja,
Árni Svanur Daníelsson,
verkefnisstjóri á Biskupsstofu

Advertisements