Hroki og hræsni í Neskirkju

by eiduralfredsson

Í gærmorgun var á Rás 1 útvarpað úr Neskirkju (hlustið hér). Þar mátti heyra séra Örn Bárð Jónsson opinbera hræsnina og hrokann sem einkennir orð (og þögn) flestra kirkjunnar þjóna í Ólafsmáli.

Í upphafi messunnar var lesinn 146. Davíðssálmur. Hér fyrir neðan er útgáfan í Snerpubiblíu sem er örlítið öðruvísi en sú sem lesin var. Ég leyfi mér að feitletra það sem mér finnst viðeigandi að hugleiða í kjölfar Ólafsmáls.

Halelúja.
Lofa þú Drottin, sála mín!
Ég vil lofa Drottin meðan lifi,
lofsyngja Guði mínum, meðan ég er til.

Treystið eigi tignarmennum,
mönnum sem enga hjálp geta veitt.

Andi þeirra líður burt, þeir verða aftur að jörðu,
á þeim degi verða áform þeirra að engu.

Sæll er sá, er á Jakobs Guð sér til hjálpar,
sá er setur von sína á Drottin, Guð sinn,

hann sem skapað hefir himin og jörð,
hafið og allt sem í því er,
hann sem varðveitir trúfesti sína að eilífu,
sem rekur réttar kúgaðra
og veitir brauð hungruðum.

Drottinn leysir hina bundnu,
Drottinn opnar augu blindra,
Drottinn reisir upp niðurbeygða,
Drottinn elskar réttláta.

Drottinn varðveitir útlendingana,
hann annast ekkjur og föðurlausa,
en óguðlega lætur hann fara villa vegar.
Drottinn er konungur að eilífu,
hann er Guð þinn, Síon, frá kyni til kyns.
Halelúja.

Byrjunin er bara fjandi góð (þetta um tignarmennina). Ég túlka þetta þannig að við eigum ekki að treysta prestum eða öðrum eingöngu í krafti stöðu þeirra, starfs eða menntunar. Það er persónan og verk hennar sem skipta máli. Við eigum t.d. ekki að treysta því að prestarnir matreiði ofan í okkur Biblíuna á hlutlausan hátt, heldur eigum við að lesa hana sjálf og komast að sjálfstæðri niðurstöðu. Það að einhver sé prestur eða biskup segir okkur ekkert um líkurnar á því að viðkomandi sé nauðgari og níðingur. Það er semsagt verið að hvetja okkur til að hugsa. Vel mælt.

Restin af sálminum er síðan í algjörri andstöðu við upphafið. Þar eru skilaboðin þau að við eigum alls ekki að hugsa sjálfstætt, heldur trúa í blindni á Jakobs Guð (sem, skv. Gamla Testamentinu, var nú frekar vafasamur karakter) og hann muni sjá um að réttlætið nái fram að ganga. Mér skilst að þetta hafi í mörgum tilfellum einmitt leitt saman Ólaf biskup og fórnarlömb hans. Þau leituðu til kirkjunnar í erfiðleikum.

Nú má segja (nema menn séu kaþólskir) að kirkjan og guð séu tveir aðskildir hlutir og fólk geti leitað til guðs án þess að blanda kirkjunni í málið. En þá þarf að skýra út hvers vegna kirkjan er yfirleitt til. Til hvers eru prestar og útvarpsmessur og fallegar byggingar, ef þær minnka ekki líkurnar á siðlausum athöfnum?

Síðan var eftirfarandi lesið úr Bréfi Páls til Galatamanna:

En ég segi: Lifið í andanum, og þá fullnægið þér alls ekki girnd holdsins. Holdið girnist gegn andanum, og andinn gegn holdinu. Þau standa hvort gegn öðru, til þess að þér gjörið ekki það, sem þér viljið. En ef þér leiðist af andanum, þá eruð þér ekki undir lögmáli. Holdsins verk eru augljós: Frillulífi, óhreinleiki, saurlífi, skurðgoðadýrkun, fjölkynngi, fjandskapur, deilur, metingur, reiði, eigingirni, tvídrægni, flokkadráttur, öfund, ofdrykkja, svall og annað þessu líkt. Og það segi ég yður fyrir, eins og ég hef áður sagt, að þeir, sem slíkt gjöra, munu ekki erfa Guðs ríki. En ávöxtur andans er: Kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og bindindi.

Hér er á ferðinni hinn siðlausi boðskapur kristninnar að það sé göfugt að berja niður eðlilegar mannlegar hneigðir og að þeir sem óhlýðnast muni ekki erfa Guðs ríki. Sem betur fer er kaþólska kirkjan lítil á Íslandi. Ofstækisfull trú hennar á þetta hefur eyðilagt líf margra barna (og fullorðinna) sem hefur verið nauðgað af kynlífssveltum þjónum þeirrar siðlausu stofnunar. Þar að auki tekst Páli að flokka skurðgoðadýrkun, fjölkynngi, fjandskap, deilur, meting, reiði, eigingirni, tvídrægni, flokkadrátt og öfund sem holdleg vandamál, sem mér finnst frekar undarlegt. Lítið um jákvæðan boðskap í þessu.

Predikun séra Arnar var bráðskemmtileg. Hann talar um seli og álagasögur og Franz Kafka og margt fleira. Þemað er álög. Talið berst svo að þjóðkirkjunni og þá kemur nú margt fróðlegt í ljós.

Séra Örn túlkar lexíuna um að treysta ekki tignarmönnum mjög rúmt. Hann segir að við eigum ekki að treysta neinum dauðlegum manni. En: “Við eigum að treysta guði einum, sem aldrei bregst.”

Hmmm…

Séra Örn rifjar þá upp upphaf Gamla Testamentisins og segir að maðurinn sé fallinn og sé í álögum. Hér er hann væntanlega að vísa til þess að maðurinn gegndi ekki guði og át af skilningstrénu og varð þar með áskynja um gott og illt. Fullkomlega siðlaus predikun um að það væri betra ef við værum heimskir apar og að við berum með okkur einhverja ímyndaðar syndir feðranna.

Síðan tekur hann fram að þessar Adam, Eva, Kain, Abel o.s.frv. séu persónur sem hafi aldrei verið til, heldur séu þetta bara dæmisögur. Hressandi að heyra það. Kirkjan mætti gera meira af því að útskýra þennan þátt kristninnar. Kannski er alveg jafn gott að lesa Esóp eða Nasreddin.

Þá er komið að klassískum trúarhroka:

Þessi mikilvægasta bók vestrænnar menningar og reyndar alls heimsins […]

Kemur ekki á óvart, en ég er ekki viss um að meiri hluti mannkyns geti tekið undir þetta. Athyglisvert að séra Örn virðist alveg hafa gleymt einum ávexti andans úr bréfi Páls hér að ofan. Hógværðinni.

Síðan:

Nú ætla ég ekki að verja vondar gjörðir syndugra og spilltra manna, hvort sem þeir klæðast pilsi eða gallabuxum, hempu eða biskupskápu og ekki drepa málinu á dreif með því að benda á sök allra manna.

…en þú gerir það nú samt síðar í predikunni, séra Örn!

En óþol fólks í garð kirkjunnar er að mínu viti einkum í garð stofnunarinnar. Þjóðkirkjunnar sem regnhlífarsamtaka safnaðanna með biskup, kirkjuþing og kirkjuráð í miðju, en síður í garð safnaðarstarfs sem unnið er af einlægni og krafti víða um land.

No shit, Sherlock!

En í ljósi þess óþols sem gætir meðal margra þá er ég á þeirri skoðun að þjóðkirkjan eigi að segja upp samningi sínum við ríkið. Að kirkjan eigi að losa sig við ríkið en ekki öfugt.

Mæltu manna heilastur, séra Örn!

Svo verður sérann nokkuð reiður:

Og svo vil ég ekki una því að pólitíkusar berji sér á brjóst þegar kirkjan á í vök að verjast og hóta henni aðskilnaði, því aðskilnaðurinn ætti að vera ríkinu miklu kvíðvænlegri en kirkjunni. Takið eftir því. Ráðherrar og þingmenn, margir hverjir sóknarbörn hér í Vesturbænum, sem reyna að veiða vinsældir út af hnjóðum kirkjunnar, athugi það vel og lesi söguna og samninginn sem í gildi er á milli ríkis og kirkju. Og þeir mega líka muna það að þeim ber að vernda hana og styðja samkvæmt stjórnarskránni, sem er enn í gildi.

Ég er sammála séranum þarna, þó samhengisleysið við það sem hann sagði áður sé nær algjört. Stjórnmálamenn hafa sýnt af sér fullkomna hræsni í þessu máli, en hann ætti nú að vita að ef einhvers staðar er til meiri hræsni en í kirkjunni, þá er það í pólitíkinni.

Kirkjunnar menn ættu samt að varast að hvetja til sögulesturs, því saga kirkjunnar á Íslandi er ófögur.

Áfram heldur reiðilesturinn:

Og svo eru það fjölmiðlar þessa lands sem þurfa svo heldur betur að ganga í sjálfa sig. Og kasta af sér yfirlæti og sjálfsöryggi í skjóli þess að þeir hafi vald sem erfitt er að gagnrýna vegna þess að þeir ráða sjálfir yfir rásum þeim og farvegum sem gagnrýni þarf að fá að renna um. Ömurlegt er upp á það að horfa hvernig fréttir eru oft hroðvirknislega unnar. Fjölmiðlar kalla svo gjarnan til álitsgjafa sem þeir virðast velja af hreinu handahófi og jafnvel persónulegum smekk einstakra fréttamanna. Fjölmiðlar hafa sumir farið mikinn gegn kirkjunni og lagt hana í einelti á óvæginn hátt. Það hefur verið ljótur leikur og ójafn.

Þetta er náttúrulega með hreinum ólíkindum og ekkert annað en siðlaus tilraun til að beina umræðunni frá kirkjunni. Hann sakar fjölmiðla um að velja álitsgjafa af handahófi í annarlegum tilgangi og í sömu predikun vitnar hann í forn rit, ekki af handahófi, heldur sérvalda kafla sem henta honum í hans kristinlegu einokunarútvarpsmiðlun. Hvaða álitsgjafa vildi sérann frekar sjá? Engin svör. Eins og venjulega skákar presturinn í skjóli stöðu sinnar og telur sig ekki þurfa að nefna nein dæmi. Bara almennt þvaður og feluleikur á bak við loðnar biblíutilvitnanir, sem geta þýtt nákvæmlega það sem maður vill.

Hræsni og siðleysi! Hafðu skömm fyrir, séra Örn!

Auðvitað eiga fjölmiðlar að stinga á kýlum og afhjúpa órétt. Sú er skylda okkar allra en það er mikið vandaverk og þar sem valdið er mikið er vandinn stærri. Og nú spyr ég í ljósi þess að fjölmiðlar hafa kynt undir úrsögnum úr þjóðkirkjunni: Hvernig get ég sagt mig úr þessu samhengi óvandaðrar fjölmiðlunar? Eru til eyðublöð til að skrá sig úr fjölmiðlunum? Og hvar er hægt að taka fyrir og fjalla um óvönduð vinnubrögð fjölmiðla án þess að það fari í gegnum síu fjölmiðlanna sjálfra? Sem eru ekki óháðir fremur en aðrir, því óháður fréttaflutningur er ekki til og hefur aldrei verið til.

Fjölmiðlamenn verða hins vegar að leitast við að láta stjórnast af góðum hug. Heiðarleika og réttsýni. Vald þeirra er mikið og tignarmönnum þar er ekkert treystandi fremur en öðrum. “Hold er mold, sama hverju það klæðist”, sagði séra Hallgrímur.

Mestmegnis meiri hræsni og afvegaleiðing, en þetta með valdið og vandann er hárrétt og lykilatriði í Ólafsmáli. Þótt kirkjan sé úrelt stofnun, þá virðist hún hafa ótrúlegt vald yfir þeim sem hana sækja og í réttu hlutfalli við trúfestu. Sérann hefði mátt bæta við að þar sem trúin er mest, þar er vandinn stærstur.

Þetta með fjölmiðlasíuna er nú bara hlægilegt í ljósi þess að prestar þjóðkirkjunnar virðast flestir tala í gegnum einhvers konar kirkjusíu, hvort sem hún er eiginleg eða bara til í þeirra eigin höfði. Talið skýrt, prestar, áður en þið ásakið aðra um að vera loðinmynntir!

Restin af predikuninni er síðan meira ógeð um að kirkjan þurfi svosem að hreinsa til, en þjóðin líka. Ég er hræddur um að frelsarinn fengi hroll ef hann væri á lífi í dag.

Advertisements