Lélegur samanburður Laugarnesklerks

by eiduralfredsson

Laugarnesklerkur ritar fremur undarlega bloggfærslu þar sem hann ber saman andrúmsloftið í Ólafsmáli og Nímenningamáli og segir það “sláandi líkt”.

Kannski er það prestsþjálfunin sem gerir séra Bjarna svona auðvelt að sjá líkindi með ótengdum málum, en mér finnst þetta mjög langsótt.

Á einhverju plani er Ólafsmál svona:

 1. Nokkrir einstaklingar (þolendur) eru beittir órétti af starfsmanni stofnunar (geranda).
  Þolendurnir leita réttar síns hjá viðkomandi stofnun.
 2. Yfirmenn og aðrir forsvarsmenn stofnunarinnar, auk annarra áhrifamanna, leggja sig fram um að þagga málið niður. Aðrir starfsmenn stofnunarinnar þegja yfir málinu.
 3. Almenningsálitið er almennt ekki með þolendunum. Starfsmenn stofnunarinnar gera ekkert til að bæta þar úr, þrátt fyrir yfirlýstan tilgang stofnunarinnar.
 4. Starfsmenn stofnunarinnar velja gerandann sem yfirmann stofnunarinnar.
 5. Gerandinn fellur frá án þess að svara til saka.

Í svipaðri einföldun er Nímenningamál svona:

 1. Almenningur mótmælir friðsamlega fyrir framan stofnun (þolanda).
 2. Lítill hópur mótmælenda (gerenda) gengur lengra.
 3. Þolandi kærir gerendur.
 4. Almenningsálitið er almennt með gerendum.
 5. Málið fer sína leið í réttarkerfinu.

Séra Bjarni hefur ákveðið að gleyma aðalatriðum málsins og vill meina að það viðhorf sem fórnarlömb Ólafs biskups mættu á sínum tíma sé sambærilegt við það sem nímenningarnir fá í dag. “…nímenningarnir eru sagðir samsafn af skítugum anarkistum, óeirðaseggjum og einhverju fleiru sem enginn vill vera”, segir sérann. Er þetta virkilega það sem fólki almennt finnst? Ég get ekki séð það, en ég bý ekki á Íslandi og það má vel vera að fréttaflutningur endurspegli ekki viðhorf fólks. Íslenskir fjölmiðlar eru svosem ekki þekktir fyrir gæði.

Almenningsálitið gagnvart nímenningunum byggist á því sem fólk þykist vita um þá og það sem gerðist við Alþingishúsið. Þar eru staðreyndir málsins nokkuð ljósar þó deilt sé um hve alvarleg brot þeirra séu. Málið skýrist svo væntanlega enn frekar fyrir dómi. Ekki svo í Ólafsmáli. Þar er almenningsálitið á sínum tíma aukaverkun af fúlum meðulum þjóðkirkjunnar og hennar þjóna. Ef háheilagir yfirmenn og kollegar séra Bjarna hefðu gert það sem meira að segja við heiðingjarnir sjáum að er rétt, þá hefði almenningur snúist á sveif með fórnarlömbum Ólafs og lögreglan hefði e.t.v. ekki þurft að yfirheyra þau með tárin í augunum. Þess í stað tók þjóðkirkjan að sér að sópa málinu undir kirkjugólfið, setti svo stærsta geislabauginn sinn á níðinginn og hélt kjafti þegar hann kærði eigin fórnarlömb.

Mér finnst einhvern veginn að séra Bjarni hefði getað grafið einhverja augljósari siðferðispredikun upp úr Ólafsmáli. Þöggun og hræsni eru stóru málin og þar eru margir snertifletir við annað áhugamál séra Bjarna – stjórnmálin. Hann hefði t.d. getað rætt um hvernig Samfylkingunni og öðrum stjórnmálaflokkum svipar til þjóðkirkjunnar. Hvernig markmið þeirra er að viðhalda sjálfum sér, hvernig siðferði og réttlæti eru einungis hráefni í auglýsingar og skrum (nema þegar svo heppilega vill til að þau hjálpi til við æðsta takmarkið – að ná eða halda völdum) og hvernig óþægilegu málin eru afgreidd í kyrrþey en ekki fyrir opnum tjöldum.

Advertisements