Hrunminjasafn Íslands

by eiduralfredsson

Mér skilst að fjölmargar flottræfilsbyggingar standi auðar eða lítt notaðar í Reykjavík og nágrenni. Ég legg til að stofnað verði Hrunminjasafn sem fái aðstöðu í einhverri þeirra. Ef ekkert finnst gæti Orkuveitan kannski flutt úr montkubbnum í Árbænum í meira viðeigandi skrifstofuhúsnæði. Þurfa þeir ekki að hagræða?

Þetta gæti orðið bráðskemmtilegt safn. Vaxmyndir af hrunverjum tækju á móti gestum í anddyrinu. Rödd Hannesar Hólmsteins glymdi í hátölurum (kannski ræðan þar sem hann útskýrir Íslenska Efnahagsundrið™). Börnin lékju sér með peningaspilaborgir. Gamlar þingræður væru endurfluttar. Svo yrði sérstök álma undir Davíðsstofu. Upplagt fyrir skipulagðar skólaheimsóknir. Kannski gjaldeyrisskapandi líka. Verandi íslenskt, yrði þetta sjálfkrafa besta safn af sínum toga í heiminum.

Það mætti jafnvel dæma hrunverja til að standa undir kostnaðinum í nokkra áratugi – svona upp í skuldina.

Advertisements