Taleb: Ástæður Hrunsins

by eiduralfredsson

Nassim Nicholas Taleb skrifaði bókina The Black Swan fyrir þremur árum þar sem hann fjallar um það sem hann kallar Svarta Svani (líkingin kemur frá því að áður en Evrópumenn sáu fyrst svarta svani, seint á 17. öld, voru þeir oft notaðir sem dæmi um afskaplega ólíkleg fyrirbæri).

Svartur Svanur er atburður sem:

 1. kemur á óvart (vegna þess að það eru fá eða engin fordæmi fyrir honum)
 2. hefur miklar afleiðingar
 3. menn hafa skýringar á eftirá og þykjast hafa séð fyrir

Í bókinni gagnrýnir Nassim harkalega hvernig fjármálakerfi heimsins er óviðbúið Svörtum Svönum og gerir í raun ráð fyrir að þeir eigi sér ekki stað. Tímasetningin var mjög heppileg fyrir höfundinn, því bókin kom út rétt fyrir Hrunið.

Hér er uppkast að nýrri grein eftir Nassim sem nefnist Why Did the Crisis of 2008 Happen?.

Samkvæmt greininni eru orsakir hrunsins eftirfarandi (í stuttu máli):

 1. Falin áhætta sem fylgir ólíklegum atburðum fer vaxandi. Ekki einungis í bankakerfinu, heldur í almennt í viðskiptalífinu.
 2. Árangurstenging er gölluð og hvetur til þess að áhætta sé falin. Dæmi: Árangur er rangt mældur og aldrei neikvæður. Bónusar eru greiddir árlega þrátt fyrir að afleiðing áhættusækni komi ekki í ljós fyrr en mörgum árum seinna. Ekki er gert ráð fyrir endurgreiðslu ef illa fer.
 3. Notkun aðferða til að fela áhættu fer vaxandi. Hér er aðallega átt við líkön sem bankakerfið notar við áhættustýringu. Þetta ýtir undir áhættusækni.
 4. Alþjóðavæðing og Internetið hafa leitt af sér margfalt flóknari kerfi. Ólíklegir atburðir hafa því meira vægi.
 5. Skilningur á ólíklegum atburðum fer minnkandi. Þrátt fyrir aukna áhættu af ólíklegum atburðum virðast þær fjármála- og hagfræðikenningar sem reikna ekki með þeim, hafa fengið aukinn meðbyr.

Sökudólgarnir:

 1. Stjórnvöld. Þau hvöttu til áhættusækni og vanhæfir einstaklingar notuðu gölluð tól til að taka ákvarðanir.
 2. Bankamenn og yfirmenn stórfyrirtækja. Þeir höfðu hag af því að fela áhættu til að tryggja sér bónusgreiðslur.
 3. Matsfyrirtæki, sérfræðingar í áhættustýringu og ýmis fagsamtök (s.s. CFA og IAFE). Hvöttu til notkunar rangra aðferða.
 4. Viðskiptaskólar og hagfræðingar. Kenndu (og kenna enn) gölluð (og kannski ónýt) fræði vegna þess að “við verðum að kenna eitthvað”. Læknisfræðin var á svipuðum slóðum á miðöldum.
 5. Eftirlitsaðilar. Notuðu gallaðar aðferðir til að meta áhættu og hvöttu til tiltekinnar gerðar áhættusækni.
 6. “Nóbelsverðlaun” í hagfræði. Settu gæðastimpil á ónýtar kenningar.

Leiðir til úrbóta:
Skipstjórinn verður að sökkva með skipinu. Þetta á að gilda um alla skipstjóra og öll skip.

– – –

N.B. Hrunið á Íslandi varð ekki vegna Svarta Svana. Þar var á ferðinni klassískt fúsk og svindl sem hefði mátt koma í veg fyrir með fagmennsku.

Advertisements