Codex ethicus

by eiduralfredsson

Á vef Lögmannafélags Íslands er að finna siðareglur þeirra. Þetta er athyglisverður lestur í ljósi nýliðinna atburða. Kíkjum á nokkur brot. Leturbreytingar eru mínar.

1. gr. Lögmanni ber að efla rétt og hrinda órétti.

Skal lögmaður svo til allra mála leggja, sem hann veit sannast eftir lögum og sinni samvisku.

Þetta er lyikilatriði. Hvað gerist þegar lögin og samviskan stangast á? Mér heyrist flestir íslenskir lögfræðingar tjá sig einungis um hina lagatæknilegu hlið málanna. Það má vera að þeir eigi bara alls ekki að hugsa um samvisku sína eða muninn á réttlæti og óréttlæti en þá er óheiðarlegt að hafa svona klausu í siðareglunum.

2. gr. Lögmaður skal gæta heiðurs lögmannastéttarinnar, jafnt í lögmannsstörfum sínum sem öðrum athöfnum.

Heiður lögmannastéttarinnar er lítill um þessar mundir. Ástæðan hlýtur að vera að of margir lögfræðingar gleymdu þessari grein.

3. gr. Lögmaður skal vera óháður í starfi og standa vörð um sjálfstæði lögmannastéttarinnar.

Lögmaður skal ekki láta óviðkomandi hagsmuni, hvort heldur eigin eða annarra, hafa áhrif á ráðgjöf sína, meðferð máls fyrir stjórnvaldi eða dómi eða á annað það, sem lögmaður vinnur í þágu skjólstæðings síns.

[…]

Þetta er nú örugglega sjaldan svo. Það eru augljós tengls á milli lögfræðiálits og hagsmuna skjólstæðings. Lögmenn fjármálafyrirtækja komust nýlega að allt annarri niðurstöðu en aðrir lögfræðingar landsins um gengislánin frægu.

8. gr. Í samræmi við meginreglu 1. gr. skal lögmaður leggja sig fram um að gæta hagsmuna skjólstæðinga sinna. Ber honum að vinna það starf án tillits til eigin hagsmuna, persónulegra skoðana, stjórnmála, þjóðernis, trúarbragða, kynþátta, kynferðis, kynhneigðar eða annarra utanaðkomandi atriða, er ekki snerta beinlínis málefnið sjálft.

[…]

Hvernig getur þetta verið í samræmi við 1. grein? Mér sýnist 8. grein vera í andstöðu við 1. grein og vera rétthærri í raunveruleikanum.

9. gr. Lögmanni er skylt að gera skjólstæðingi sínum kunnugt hvaðeina, er kann að gera hann háðan gagnaðila eða gera tortryggilega afstöðu hans til gagnaðila, svo sem frændsemi, samstarf, fjárhagslega hagsmuni eða önnur slík tengsl.

Þetta hlýtur að vera mjög erfitt á Íslandi.

20. gr. Lögmaður má aldrei gegn betri vitund gefa dómstólum rangar eða villandi upplýsingar um staðreyndir eða lagaatriði.

Þetta má eflaust teygja endalaust en gengislánalögfræðingar hljóta að hafa fallið á þessu prófi. Nema skortur á betri vitund sé orðin afsökun fyrir að þekkja ekki lögin.

22. gr. Lögmaður skal kappkosta að vanda málatilbúnað sinn fyrir dómstólum og stuðla á annan hátt að greiðri og góðri málsmeðferð af sinni hálfu.

Sjá gengislán og mál þeim tengd.

38. gr. Lögmaður ber persónulega ábyrgð á lögmannsstörfum sínum og fulltrúa sinna.

[…]

Ábyrgð stjórnmálamanna og opinberra embættismanna er merkingarlaust hugtak á Íslandi. Skyldi það vera eins með lögfræðinga? Það kemur hugsanlega í ljós á næstunni.

43. gr. Stjórn félagsins hefur eftirlit með því, að reglum þessum sé fylgt. Hún hefir um það samráð við dómstóla og stjórnardeildir eftir því sem ástæða er til.

[…]

Þetta getur ekki verið virkt eftirlit. Ég man ekki eftir að Lögmannafélagið hafi að eigin frumkvæði bent á þau augljósu brot sem viðgengist hafa í mikilvægum málum.

44. gr. Framanskráðar reglur má ekki skoða sem tæmandi taldar um góða lögmannshætti.

Líklegra er að þessar reglur séu hámarksreglur. Það er í stíl við túlkun flestra lögfræðinga á landslögum.

Advertisements