Íslenskt mikilmennskubrjálæði

by eiduralfredsson

Mér hefur alltaf fundist óraunhæft að 300 þúsund manna samfélag geti staðið undir raunverulegri samkeppni. Samkeppni er ósköp eðlileg í alls kyns smárekstri og kannski þar sem ekki er um nauðsynlega þjónustu að ræða en getur bara ekki gengið annars staðar.

Orðið “grunnþjónusta” er mikið notað. Ég kann ekki alveg skilgreininguna, en í fljótu bragði sýnist mér flestir þurfa eftirfarandi:

 • Húsnæði
 • Mat og drykk
 • Eldsneyti, ljós, vatn og hita
 • Samgöngur
 • Síma, Internet, póstþjónustu
 • Læknisþjónustu
 • Menntun
 • Vímuefni

Samkeppnin getur séð um sumt af þessu á Íslandi en á ekki erindi í eftirfarandi:

 • Rekstur eldsneytisfélaga. Þar er augljóslega engin samkeppni hvort sem er. Eitt ríkisolíufélag dugar. Sama gildir um rafmagn, hita, vatn o.s.frv.
 • Rekstur samgöngufyrirtækja. Sveitarfélögin geta séð um samgöngur innan sjálfs sín. Ríkið getur séð um samgöngur milli sveitarfélaga.
 • Skipulag sveitarfélaga. Samkeppni milli sveitarfélaga er íbúum þeirra ekki til gagns. Þar sem er nokkurn veginn samfelld byggð þarf einungis eitt sveitarfélag (t.d. Seltjarnarnes, Reykjavík, Mosfellsbær, Kópavogur, Garðabær, Álftanes, Hafnarfjörður). Þar sem fáir búa er hagræðið af sameiningu augljóst.
 • Rekstur grunnlæknisþjónustu. Ríkið á að reka eitt heilbrigðiskerfi sem sér um grunnþarfir. Áherslan er á orðið grunn, þ.e.a.s. að halda fólki við góða heilsu. Þeir sem vilja endilega lúxus eins og hvítar fyllingar í tennur eða minna útstæð eyru geta borgað fyrir það sjálfir. Þar getur samkeppnin blómstrað.
 • Internet-, síma- og póstþjónstu. Allt í ríkiseigu.
 • Rekstur skóla. Mjög fáar nýjungar í skólastarfi hafa skilað bættum árangri. Það er bara auðveldara að vera letingi í dag. Einkaskólar eru óþarfi í svona litlu landi. Athugið að hér er átt við nauðsynlega menntun en ekki námskeið í galdalækningum og þvíumlíkt.
 • Húsnæðislán og félagslegt húsnæði. Ríki og sveitarfélög geta veitt þessa þjónustu ódýrara en nokkur annar því þeir þurfa ekki að græða á henni.

Það er stundum sagt að ríkið kunni ekki að reka fyrirtæki og fari illa með fé. Af eigin reynslu sýnist mér það oft vera rétt, en ég held að það sé frekar merki um spillingu, heldur en að lélegur rekstur sé í eðli ríkisins. Í spilltu íslensku kerfi er mönnum raðað í stöður eftir flokkshollustu og öðrum mælikvörðum sem hafa ekkert með hæfileika þeirra til starfans að gera. Æviráðningar eru normið. Sjaldan er spurt um árangurinn.

Ég vann að nokkrum verkefnum í Sádí-Arabíu og þar er þetta alveg eins. Innfæddir Sádar fá sjálfkrafa góðar stöður. Þeir eru deildarstjórar og alls konar yfirmenn, hvort sem þeir eru hæfir eða ekki. Slíkt kerfi verður aldrei skilvirkt, en þeir eiga svo mikinn pening að þeim er nokkuð sama. Íslendingar eru á hausnum og geta ekki leyft sér að hugsa þannig.

Advertisements