Bónus er ekki Tesco

by eiduralfredsson

Reglulega birtast fréttir á Íslandi um að vörur á Íslandi séu nú ekkert svo dýrar. Hagstofan hefur nú birt niðurstöður könnunar á matvælaverði frá Eurostat (sjá hér).

Ég fæ ómögulega skilið hvernig Ísland kemur svona vel út úr þessu. Það fæst ekki staðist að kjöt, mjólk, ostur og egg séu dýrari í Bretlandi en á Íslandi. Það eina sem mér dettur í hug er að verið sé að bera saman vörur og/eða verslanir sem eru ekki sambærilegar.

Skömmu eftir að ég flutti til Bretlands voru fréttir á Íslandi um að verð á brauði væri svipað og í öðrum löndum. Á þeim tíma kostaði heilhveitibrauð í Bónus eitthvað rúmlega 100 krónur (ég man ekki nákvæma tölu) en í sambærilegri búð hér um 20 krónur (á gengi þess dags).

Lykilorðið hér er sambærilegt. Það er ekki hægt að bera saman verð í búðum eins og Bónus og stórmörkuðum eins og Tesco. Í Bónus er nánast engin þjónusta, lítið vöruúrval, vörur gjarnan á brettum og ekki hægt að mæta fólki á göngunum. Tesco er meira í stíl við Hagkaup.

Við eigum okkar Bónusa hér. Aldi og LIDL eru dæmi um það og þar er vöruverð umtalsvert lægra en í Tesco. Svo eru líka til dýrari verslanir eins og Marks & Spencer og Waitrose.

Staðreyndin er sú að ódýrustu búðirnar í Bretlandi eru miklu ódýrari en þær ódýrustu á Íslandi, án þess að gæðum sé fórnað. Það hlýtur að vera lykilatriði ef maður vill vita hvar er ódýrast að lifa. Þessi könnun segir okkur ekkert um það.

Því miður er engin grunngögn að finna á vef Hagstofunnar. Ef þetta er byggt á sömu gögnum og vísitala neysluverðs, þá segir á vefnum:

Grunngögn eru varðveitt á Hagstofu og eru ekki aðgengileg öðrum en starfsmönnum vísitöludeildar.

Þetta er ekki nógu gott. Það er ekki hægt að treysta tölum sem byggðar eru á leynilegum gögnum.

Advertisements