Ekki hlusta á hagfræðinga

by eiduralfredsson

Hagfræði er býsna skrýtin fræðigrein og virðist hafa fremur lítið forspárgildi. Þeir sem efast um það hafa ekki fylgst með fréttum síðustu ár (og áratugi). Hagfræðingar eru samt áfjáðir í að færa fram ráðleggingar um framtíðina og telja sig vita hvaða meðul virka best og hvernig á að beita þeim.

Ef Sorppressan hefur rétt eftir Ólafi Ísleifssyni, þá á AGS núna að hlusta frekar á hagfræðinginn Paul Krugman heldur en sína eigin hagfræðinga. Krugman hefur meira að segja skrifa grein í dagblað um málið.

Hann útskýrir að þarna sé ekki hver sem er að skrifa, heldur viðurkenndur nóbelshagfræðingur sem skrifar í heimsblaðið New York Times. Þar af leiðandi ætti Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, sem hefur áhrif á mótun efnahagsstefnunnar í samráði við ríkisstjórn, að íhuga boðskapinn, að mati Ólafs.

Ef menn velja sér ráðgjafa á þessum forsendum, þá er ekki við góðu að búast.

Nóbelsverðlaun í hagfræði eru strangt til tekið ekki Nóbelsverðlaun, þótt afhending þeirra fari saman við afhendingu hinna hefðbundnu verðlauna. Sænski seðlabankinn stofnaði til þeirra árið 1968 og kostar þau enn. Þau hafa löngum verið umdeild og eru margir þeirrar skoðunar að þau eigi ekki rétt á sér.

Fjölmargir hafa fengið þessi verðlaun, þar á meðal Myron Scholes (meðhöfundur hins alræmda Black-Scholes líkans) og Milton Friedman. Getum við virkilega tekið þá alvarlega núna?

Auðvitað skiptir engu máli hvaða verðlaun maðurinn fékk eða hvaða dagblað hann skrifar í. Það sem máli skiptir er hvað hann segir og hvaða rök hann færir fyrir máli sínu og hér er einmitt vandamálið. Hagfræðingar tala hver í sína áttina og enginn þeirra getur raunverulega sýnt fram á að þeir hafi rétt fyrir sér. Þeir sem hæst tala eru yfirleitt þeir sem hræra saman órökstuddum hugsjónum og vafasömum hagfræðikenningum.

Það er kominn tími til að hagfræðingar viðurkenni vanmátt sinn og að ráðamenn taki tillit til þess í sínum ákvörðunum.

Advertisements