Bara svona svipuð Reykjavík

by eiduralfredsson

Betri Reykjavík.

Mér fannst þetta vera góð hugmynd í fyrstu. Nokkurns konar hugmyndahakkavél. Hver sem er getur hent þar inn hverju sem er og vélin sprautar út úr sér upplýsingum. En líkt og með hefðbundna hakkavél þá fer útkoman eftir því sem í vélina er sett. Það er ekki hægt að búa til góða kæfu úr lélegu hráefni. Hugmyndahakkavélin segir mér að ýmsar hugmyndir njóti meiri stuðnings en aðrar. Það þýðir samt ekki að þær séu góðar, skýrar eða yfir höfuð framkvæmanlegar.

Þeir sem hafa notað hakkavél kannast við að það þarf að tæma skálina reglulega og búa eitthvað til úr því sem hakkað var. Í augnablikinu virðist hugmyndaskálin vera full. Listinn yfir efstu hugmyndir breytist lítið. Þýðir það að þessar hugmyndir eru bestar eða eiga betri hugmyndir ekki möguleika vegna þess að þær gömlu eru fyrir?

Það er þess virði að gefa þessu tækifæri en ég er fremur efins um að þetta skili miklu í núverandi formi. Ég fylgist spenntur með.

Advertisements