Aðskilnaður ríkis og stjórnmálaflokka

by eiduralfredsson

Flestir Íslendingar virðast vilja aðsksilnað ríkis og kirkju. Helstu rökin eru þau að lögbundin mismunun milli ólíkra lífsskoðanahópa sé óréttlát og að henni fylgi fjárhagslegt og félagslegt óréttlæti.

Úr lögum um fjármál stjórnmálasamtaka:

II. kafli. Framlög ríkis og sveitarfélaga til stjórnmálastarfsemi.
3. gr. Framlög til stjórnmálasamtaka úr ríkissjóði.
Árlega skal úthluta fé úr ríkissjóði til starfsemi stjórnmálasamtaka sem fengið hafa a.m.k. einn mann kjörinn á Alþingi eða hlotið hafa a.m.k. 2,5% atkvæða í næstliðnum alþingiskosningum samkvæmt ákvörðun á fjárlögum hverju sinni. Fjárhæðinni skal úthlutað í hlutfalli við atkvæðamagn.
4. gr. Framlög til þingflokka úr ríkissjóði.
Árlega skal úthluta fé úr ríkissjóði til starfsemi þingflokka á Alþingi samkvæmt ákvörðun á fjárlögum hverju sinni. Greiða skal jafna fjárhæð fyrir hvern þingmann og nefnist hún eining. Að auki skal greiða eina einingu fyrir hvern þingflokk. Því til viðbótar skal úthluta fjárhæð sem svarar tólf einingum til þingflokka þeirra stjórnmálasamtaka sem eiga ekki aðild að ríkisstjórn og skiptast þær einingar hlutfallslega milli þeirra. Forsætisnefnd Alþingis getur sett nánari reglur um greiðslur samkvæmt þessari grein.
5. gr. Framlög til stjórnmálasamtaka frá sveitarfélögum.
Sveitarfélögum með fleiri en 500 íbúa er skylt, en öðrum sveitarfélögum heimilt, að veita stjórnmálasamtökum, sem fengið hafa a.m.k. einn mann kjörinn í sveitarstjórn eða hlotið a.m.k. 5% atkvæða í næstliðnum sveitarstjórnarkosningum, fjárframlög til starfsemi sinnar. Ákvörðun um slík framlög tekur sveitarstjórn samhliða samþykkt fjárhagsáætlunar. Fjárhæðinni skal úthlutað í hlutfalli við atkvæðamagn.

Hvað eru stjórnmálasamtök annað en lífsskoðanahópar? Eru ofangreind lög ekki alveg jafn óréttlát og Þjóðkirkjumismununin? Þjóðkirkjan er nánast valdalaus og trúblinda er sjaldgæf á Íslandi. Flokksblinda er hins vegar algengur og hættulegur kvilli og það ætti engum að dyljast sú hætta sem fylgir stjórnmálaflokkum.


Aðskilnaður ríkis og stjórnmálaflokka ætti að vera í forgangi.

Advertisements