Sjálfsblekkingarbjálkinn

by eiduralfredsson

Það er rétt hjá Detox-Jónínu að menntahroki er leiðinlegur. Eins og hún útskýrir best sjálf:

Ég er menntaður íþróttafræðingur og hef lært miklu meira en þeir um þetta.

Skólabókardæmi um menntahroka.

En hún hefur snúið þessu alveg á hvolf. Kjarni vísindalegrar hugsunar er nefninlega auðmýkt. Auðmýkt fyrir mannlegu eðli og okkar eigin takmörkunum. Það sem er vísindin hafa lært er að sjálfsblekking er manninum eiginleg.

Jesús spurði:

Hví sér þú flísina í auga bróður þíns, en tekur ekki eftir bjálkanum í auga þínu?

Svar vísindanna er:

Vegna þess að þannig er mannlegt eðli. En ef við viðurkennum að bjálkinn er í auganu þá getum við fundið leiðir til að gera hann sýnilegan.

Frelsarinn hafði annað svar. Hann var ekki fyrr kominn niður af fjallinu en hann steingleymdi sjálfsblekkingarbjálkanum í eigin auga og sannfærði sig um að hann gæti læknað líkþráa og hrakið út illa anda. En það er önnur saga.

Við eigum margt ólært en þessi auðmýkt vísindanna hefur kennt okkur ýmislegt um eðli bjálkans og hvernig best er að höndla hann. Þeir sem nenna geta byrjað að kynna sér það hér. Það eru margir á lífi í dag vegna þessa.

Margir hafa ekki þessa auðmýkt. Bjálkinn í auga þeirra er ávallt ósýnilegur. Þeir neita tilvist hans og gæta þess að gera ekkert til að finna hann. Þeirra hroki er hroki fáfræðinnar. Þetta er fullkomlega eðlileg mannleg hegðun, en fáfræði engu að síður. Fáfræðihrokinn er eitt helsta einkenni loddara og sölumanna snákaolíu en hann er ekki bundinn við þær öldnu starfsgreinar. Margir læknar þjást af þessum kvilla og gildir þar einu hve langa skólagöngu þeir eiga að baki.

Sorglegt nýlegt dæmi eru lyf sem nefnast antiarrhythmic á ensku (hér brestur mig þekkingu á móðurmálinu). Hjartalæknar eru allir vel skólagengnir og margir vel menntaðir, en í þessu tilfelli fylgdu þeir í fótspor Frelsarans, illu heilli. Þeir gleymdu bjálkanum og sannfærðu sig um að þessi lyf væru gagnleg til að koma í veg fyrir hjartaáföll hjá tilteknum hópi sjúklinga. Fyrir þessu voru engar áreiðanlegar sannanir en læknarnir ofmátu eigin skólagöngu, reynslu og innsæi og þóttust sjá góðan árangur. Þeir sannfærðu sjálfa sig að með þessu væri þeir að bjarga mannslífum. Raunin var önnur og þegar þeir fengust loks til að leita bjálkans kom í ljós að lyfin höfðu þveröfug áhrif.

Í Bandaríkjunum einum létust um 50.000 manns vegna þessa. Þetta var á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Enn eru til læknar sem ávísa þessum lyfjum í þessum tilgangi. Þessi bók fjallar um þetta hörmulega mál.

Munum eftir bjálkanum. Vörumst fáviskuhrokann.

Advertisements