Siðleysi af gáleysi

by eiduralfredsson

Ég er ekki nægilega lögfróður til að hafa skoðun á því hvort Davíð Oddsson og félagar hans eru sekir um lögbrot, en siðleysi margra athafna þeirra finnst mér liggja í augum uppi.

Við erum öll fær um siðleysi en það gerir okkur samt ekki að siðleysingjum. Siðleysingi er sá sem er blindur á eigið siðleysi og viðurkennir ekki fyrir sjálfum sér að hann hafi gert rangt.

Fáir eru fæddir siðleysingjar og að því er ég best veit er þetta ekki smitsjúkdómur. Því er undarlegt að sjá hve margir ráðamenn virðast bera þessi einkenni. Skýringin hlýtur að liggja í umhverfinu. Ef barn er alið upp við að siðlausar athafnir séu eðlilegar og jafnvel æskilegar verður það illa fært um að taka þátt í samfélaginu. Endurhæfingin er mjög erfið og tímafrek og óvíst um árangur. Eins er með þá sem hafa dvalið of lengi í “kerfinu”. Hægt og bítandi breytast siðviðmið þeirra og æ fleiri ákvarðanir sem áður voru óásættanlegar renna ljúflega niður.

Þetta er skelfilegt ástand. Gleymum því ekki að þetta eru bræður okkar og systur. Sum þeirra eru vissulega langt leidd en okkur ber skylda til að endurhæfa þau eins og kostur er. Ekki verður öllum bjargað en við verðum að reyna. Við verðum að koma þeim út úr þessu mannskemmandi umhverfi. Út úr stjórnmálaflokkunum. Út úr bönkunum. Út úr lífeyrissjóðunum. Svo verðum við að hlúa að þeim og gæta þess að þau komi ekki nálægt slíkum störfum aftur fyrr en fullum bata er náð. Síðast en ekki síst verðum við að breyta umhverfinu til að tryggja sem best að aðrir lendi ekki í siðferðiskolkrabbanum.

Sameinumst, hjálpum þeim!

Advertisements