Séra Bjarni

Ég fylgist vel með bloggi séra Bjarna Karlssonar. Þar er mörg góð ráð að hafa.

Þó ég þekki manninn ekki þá hef ég kynnst honum og starfi hans dálítið. Hann var sóknarprestur í Vestmannaeyjum þegar tengdafaðir minn fyrrverandi lést þar í slysi fyrir allmörgum árum. Ég ber ótakmarkaða virðingu fyrir þeim manni sem tók á móti okkur eftir þann hörmulega atburð. Síðar sá séra Bjarni um hjónavígslu mína og bjó svo um hnútana að ég gæti, sökum trúleysis, sætt mig við að kvænast í kirkju.

Í nýjustu predikun sinni, Við erum það sem við munum, fjallar séra Bjarni um mikilvægi minninganna. Sameiginleg reynsla bindur okkur ósýnilegum böndum við vini og ættingja og annað fólk sem verður á okkar vegi í lífinu. Á þann hátt erum við Bjarni hluti af sögu hvor annars.

Séra Bjarni segir:

Einstaklingur sem man ekki sögu sína verður aldrei fyllilega með sjálfum sér. Fjölskylda sem ekki rifjar upp og segir sögur, gliðnar með tímanum.

Sammála. Ég hefði ekki getað orðað þetta betur sjálfur.

Ennfremur segir séra Bjarni:

Það sama gildir um þjóðfélagið. Við verðum að þekkja sögu okkar, fjalla um hana, kenna börnunum bæði um landnámið og hernámið og líka um fjárnámið! Með vitið og viljann að vopni þurfum við í sífellu að safna sögum, varðveita minningar og reynslu.

Það er margt til í þessu en þetta er talsvert ólíkt þeim sögum ef persónulegri reynslu sem séra Bjarni fjallaði um fyrst. Ef atburðir eru nálægt okkur í tíma eða fjalla um staði og persónur sem við þekkjum, hafa þeir meiri merkingu. En þetta þynnist út með tímanum og aukinni fjarlægt og það kemur að því að sögurnar hafa enga persónulega merkingu og breytast í ópersónulega sagnfræði og, oftar en ekki, skáldskap.

Ég hef t.d. gaman af að lesa Íslendingasögurnar og sérstaklega þær sem gerast á Suðurlandi, vegna þess að þar þekki ég aðeins til. Þær sögur sem gerast annars staðar höfða síður til mín. Það er samt erfitt að setja sig í spor sögupersónanna, því þeirra líf og aðstæður voru afar ólíkar okkar. Íslendingasögurnar eru líka að nokkru (eða miklu) leyti skáldskapur og því má ekki gleyma þegar þær eru lesnar. Þegar ég les að Gunnar á Hlíðarenda “hljóp meir en hæð sína með öllum herklæðum og eigi skemmra aftur en fram fyrir sig”, þá virkar það á mig líkt og að horfa á X-Men.

Séra Bjarni lítur þetta öðrum augum:

Kirkjan er svona sagna-samfélag. Hvert einasta kirkjuhús saman stendur af veggjum, þaki og einu borði og á því borði liggur bók og þegar bókinni er flett heyrast ótal raddir frá ólíkum tímum og aðstæðum. Þessar raddir ræðast við og eru í óða önn að túlka hver aðra og hvert sinn sem lesið er úr bókinni bætist rödd inn í samtalið. Við sem tilheyrum kristinni kirkju erum með viti okkar og vilja að taka þátt í samtali sem staðið hefur a.m.k. allt frá tímum forn-Hebrea. Það eru svona þrjúsþúsundogfimmhundruð ár.

Þetta finnst mér heldur langsótt. Það er nógu erfitt að tengja sig við sögur sem ritaðar voru á Íslandi fyrir nokkurhundruð árum og fjölluðu um Íslendinga og gerðust á Íslandi (svona að mestu leyti), hvað þá við 3500 ára gamla forn-Hebrea í gegnum bók sem er augljóslega enn meiri skáldskapur en Íslendingasögurnar.

Við erum nefninlega það sem við munum, miklu meira en það sem okkur er sagt.