Sendum fjölmiðlamenn í vithimnugreiningu

by eiduralfredsson

Í Reykjavík Síðdegis á Bylgjunni síðasta fimmtudag (3. júní) var gott dæmi um hættuna sem fylgir fáfróðum fjölmiðlamönnum sem nenna/kunna ekki að að meta heimildir og heimildamenn.

Hlustið hér.

Þar var haft eftir BBC að ljósmynd sem tekin var af tveggja ára dreng í sumarfríi hefði sýnt ský á hægra augasteini. Vegna þessa var drengurinn sendur til læknis og hann greindist með illkynja æxli í auganu.

Ég endurtek: Í auganu

Ég fann nú reyndar ekki þessa frétt á BBC en þessi frétt í Daily Mail er nánast eins. Þorgeir hefur kannski bara ruglast.

Retinoblastoma

“Þegar okkur rekur í vörðurnar varðandi ýmis mál að [sic] þá leitum við til sérfræðinganna”, sagði einn stjórnandi þáttarins. Það vottaði ekki fyrir kaldhæðni þegar hann kynnti til sögunnar Hallgrím Magnússon lækni.

Hallgrímur hóf þegar að ausa úr kuklskálunum og útskýrði fyrir hlustendum að “augað er lampi líkamans og þess vegna getum við lesið út úr augunum flest sem að viðkemur okkur”. Hann útskýrði ennfremur að lithimnugreining væri gagnleg til að greina gömul fótbrot (meira segja á uglum) og fylgjast með heilsu líkamans alls, ekki bara augans.

Þetta fannst Bylgingum afar merkilegt og stungu upp á því að heimilislæknar væru þjálfaðir í þessum fræðum. Fróðlegt væri að heyra viðbrögð læknanna við því.

Hallgrímur minntist hvergi á þá staðreynd að lithimnugreining kemur fréttinni ekkert við. Drengurinn var með retinoblastoma, sem er æxli í auganu (ég endurtek: Í auganu) og það er vel þekkt einkenni að sjá ský á augasteininum á ljósmyndum.

Lithimnugreining (iridology) hljómar mjög vísindalega en, líkt og hómopatía (homeopathy) (hér vantar gott íslenskt orð) og hnykklæningar (chiropractic), er hún byggð á 19. aldar kenningum sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum.

Það er óábyrgt að fjalla um þetta eins og alvörumál sé að ræða.

Hér er áhugaverð frásögn frá innanbúðarmanni:
Confessions of a Former Iridologist

Ísland þarf nú meira en áður á gagnýnni fjölmiðlun að halda. Þetta er dæmi um hið gagnstæða. Það þarf kannski að senda íslenskt fjölmiðlafólk í vithimnugreiningu.

Advertisements