Tökum upp Gleðibankavísitöluna!

by eiduralfredsson

Ég er nógu gamall til að muna eftir Gleðibankanum (hér með finnskum texta). Ég man að það voru allir sannfærðir um að þetta væri einfaldlega besta lagið og það væri bara formsatriði að vinna keppnina. Við hefðum náttúrulega verið búin að því fyrir löngu ef það væri ekki svona dýrt að taka þátt. Það var líka mikið rætt um hvað það yrði mikill kostnaður fyrir RÚV þegar við héldum keppnina að ári. Til að gulltryggja sigurinn þá var búið til dýrasta tónlistarmyndband Íslandssögunnar og fjárfest í rándýrum búningum. Maggi Eiríks fékk rosa summu til að útsetja.

Svo kom keppnin og við enduðum ekki langt frá botninum. Þetta var hneyksli! Ekki að við drulluðum á okkur og gátum ekki neitt, heldur að útlendingar skildu ekki snilldina. Þvílíkir hálfvitar! Svo voru náttúrulega öll smáatriðin sem eyðilögðu fyrir okkur. Norski trompetleikarinn klikkaði á einni nótu. Af hverju fengum við ekki að nota segulband eins og hinir?

Sama Gleðibankastemningin setti Ísland á hausinn nýlega. Í stað Helgu, Pálma (ekki í Fons) og Eíríks fengum við Jón Ásgeir, Björgólf B. og Hannes S. Í stað ICY-flokksins fengum við Baug og Samson og FL Group. Rándýr jakkaföt. Rándýr myndbönd. Kampavín. Kavíar. Kókaín. Viðskiptaráð sagði að Íslendingar stæðu Norðurlöndunum framar á flestum sviðum og þótti engum óeðlilegt því Íslendingar eru einfaldlega bestir. Þetta studdu valdar kannanir á hamingju og spillingarleysi.

Svo hrundi allt draslið og hver voru viðbrögðin? Var þetta Íslendingum að kenna? Nei, þetta var bara einhver ólund í útlendingum sem skildu ekki snilldina. Gordon Brown setti okkur í flokk með hryðjuverkamönnum. Hann var bara vondur kall sem skildi ekki. Svo voru önnur illmenni í nágrannalöndunum sem skipulögðu umsátur og vildu ekki hjálpa. Lög, reglur og eftirlit virkuðu ekki en það var ekki okkur að kenna. Við tókum bara upp Evrópulöggjöf sem var handónýt.

1986 var ár Gleðibankans en það hefur ekki mikið breyst síðan þá. Götur Reykjavíkur eru reyndar hættar að tæmast meðan Söngvakeppnin stendur yfir en það er nokkurn veginn sama stemningin í blöðunum fyrir og eftir keppni. Lagið er sjálfkrafa frábært, enda íslenskt. Keppendur okkar fá mesta klappið á æfingum og slá í gegn hvar sem þeir koma. Heimamenn hafa aldrei séð annað eins. Á hverju ári er grafinn upp veðbanki einhvers staðar í heiminum sem spáir okkur góðu gengi. Í undirbúningnum er bannað að “tala niður” framlagið. Ef vel gengur þá er það sönnun þess að við erum best. Ef illa gengur þá er ekki minnst á það og enginn kannast við smáborgaraháttinn.

Ísland ætti að taka upp Gleðibankavísitölu sem er mæld á ári hverju í kringum Söngvakeppnina. Hana má nota til að sjá hvort þjóðin er að færast nær eða fjær raunveruleikanum. Í augnablikinu er hún á svipuðum stað og 1986.

Advertisements