Hugsjónir eru hættulegar

by eiduralfredsson

Stjórnarskrá Bandaríkjanna var samin á 18. öld. Hún kveður á um að ekki megi stofna ríkistrúarbrögð og að ríkið megi ekki gera upp á milli mismunandi trúarbragða og ekki heldur á milli trúaðra og vantrúaðra.

Hvers vegna skyldu Bandaríkjamenn hafa farið þessa leið? Vegna þess að þeir áttuðu sig á því að trúarbrögð eru ekki heppileg undirstaða góðra ákvarðana. (Það er mikil kaldhæðni að trúarofstækismenn hafa ráðið ríkjum vestra að undanförnu, en stjórnarskrárákvæðið er samt sem áður gott.)

Meginhlutverk stjórnmálamanna er að taka ákvarðanir fyrir hönd almennings og við viljum að þeir taki góðar ákvarðanir. Þetta er augljóslega mjög vandasamt verk, ekki síst vegna þess að oft er engin ein ákvörðun best og margvíslegir hagsmunir rekast á. Það er mikilvægt að vera sveigjanlegur ákveða ekki hvaða niðurstaða er best áður en rökræða fer fram og það er einmitt hér sem trúarbrögð eru vandamál.

Gott dæmi um þetta er hvernig Þjóðkirkjan hefur meðhöndlað mál samkynhneigðra. Það hefur tekið ótrúlega langan tíma fyrir hana að taka homma og lesbíur í sátt þótt samfélagið almennt hafi fyrir löngu gert það. Ekki svo að skilja að prestar Þjóðkirkjunnar séu almennt hommahatarar, en viðhorfsbreytingin kom ekki (og gæti aldrei komið) innan úr þeirri stofnun. Hún hefur verið dregin á rasshárunum út úr miðaldamyrkrinu og pínd til að skipta um skoðun.

En trúarbrögð eru einungis ein birtingarmynd staðnaðra og ósveigjanlegra skoðana. Stjórnmálaflokkar eiga sér líka kennisetningar sem menn verða að tileinka sér vilji þeir tilheyra Flokknum. Þessar kennisetningar eiga sér rætur í þeim hugsjónum sem urðu til að viðkomandi flokkur var stofnaður. Því eldri sem stjórnmálaflokkurinn er, því eldri eru hugsjónirnar. Líkt og trúarbrögðin og stofnanir þeirra er nánast ómögulegt fyrir stjórnmálaflokk að taka upp nýjar hugsjónir og breyta kennisetningum. Þær eru heilagar. Nýkommúnistar geta aldrei hugsað sér að einkavæða og frjálshyggjufasistar ríkisvæða aldrei. Það er engin umræða um kosti og galla, bara hróp og köll á milli fylkinga. Þessu er svo hampað sem góðum hlut og menn eru stoltir af að vera í “hugsjónapólitík” og “standa á eigin sannfæringu”.

Nýir tímar og nýtt fólk hafa lítil sem engin áhrif, hvort heldur er í stjórn- eða trúmálum. Það er t.d. enginn eðlismunur á Krossinum og Þjóðkirkjunni. Þetta er aðeins geggjaðra hjá Gunnari en allt þetta lið les sömu setningarnar upp úr sömu bókinni. Eins breyttist ekkert þegar Alþýðubandalagið og Alþýðuflokkurinn skiptu um nafn því hugsjónirnar sem að baki búa voru aldrei endurskoðaðar.

Advertisements