Lækningabók handa alþýðu á Íslandi

by eiduralfredsson

(Birtist í Mogganum föstudaginn 28. maí)

Afi minn var fæddur árið 1911. Sem unglingur fékk hann berkla og var lagður inn á Landspítalann. Ýmsar framfarir höfðu þá nýlega orðið í læknavísindum og margt var því vitað um sjúkdóminn en engin lækning var til. En læknar vilja lækna og afi var „læknaður“ með terpentínu og rúmlegu og ýmsum öðrum ráðum sem menn trúðu á.

Það kann að hljóma undarlega en á þessum tíma höfðu menn ekki fundið upp traustar aðferðir til að komast að því hvaða ráð virkuðu í raun. Læknar þess tíma voru sannfærðir um að gömul ráð og persónuleg reynsla þeirra af lækningum væri besta leiðin til að komast að hinu sanna. Það var móðgun að halda því fram að læknir með áratuga reynslu gæti sannfært sjálfan sig um að tiltekin meðferð væri til góðs þegar hún var í raun að flýta fyrir dauða sjúklingsins. Jafnvel þegar mismunandi læknar mæltu með mismunandi aðferðum, var lítill vilji innan læknastéttarinnar fyrir því að gera út um ágreininginn á vísindalegan hátt. Þetta var arfleifð fyrri tíma þegar læknar vissu nánast ekki neitt um sjúkdóma og þaðan af síður um lækningar. Það dró þó ekki úr trú þeirra á eigin meðulum.

Stjórnmálamenn og -flokkar okkar tíma eru eins og læknar og lækningabækur nítjándu aldar. Þeir sjá kolbrand og tæringu í hverjum manni og uppáskrifa blóðtöku, kamfóruspíritus og uppsölu með sannfæringu predikarans. Allt byggt á órökstuddum uppskriftum úr Bókinni. Engin sjálfstæð hugsun, nema til að komast að „réttri“ niðurstöðu. Engin sjálfsgagnrýni. Aldrei að skipta um skoðun og aldrei að hafa rangt fyrir sér. Það er ekki hægt að treysta manni sem veit ekki allt fyrirfram. Aldrei að játa mistök. Hugsjónir og reynsla er það sem gildir. Allt annað er hættulegt. Það er ekki í verkahring hins almenna manns að gagnrýna eða krefjast sannana. Nei, hann skilur ekki vísindin sem að baki búa og hefur ekki vit og ekki reynsluna. „Ástandið er vissulega slæmt, en hvernig væri það ef við værum ekki hér?“, hugsar stjórnmálamaðurinn.

Kjósendur eru í hlutverki sjúklingsins. „Mikið er nú gott að læknirinn er kominn. Hann einn veit hvað gera skal. Það er óþarfi að vefengja ráðin. Hann er með réttu bókina. Hann hefur vitið. Hann hefur fengið réttu þjálfunina. Hann hlýtur að vita hvað hann er að gera.“

Ég hef greitt atkvæði í öllum kosningum á Íslandi síðan ég fékk kosningarétt. Ég hef alltaf skilað auðu. Ég fæ ómögulega skilið hvernig nokkur maður getur kosið stjórnmálaflokk. Flokkakerfið hefur alltaf verið brandari en fólk hefur bara ekki skilið hann.

Þar til núna.

Advertisements