Merkingarlaust mál

by eiduralfredsson

Nafni minn Guðnason heldur úti málhreinsunarbloggi á Eyjunni. Ég er sammála nánast öllu sem þar segir.

Ég tek æ oftar eftir því að fólk nennir eða kann ekki að velja sér orð sem hafa skýra merkingu. Stjórnmálamenn og bílasalar hafa atvinnu af því að tala óskýrt, svo þetta er skiljanlegt í þeirra tilviki, en ákaflega pirrandi að öðru leyti, sérstaklega þegar slíkt kemur frá blaðamönnum.

Hér er lítið dæmi um þrjú orð sem oft sjást í eftirfarandi röð og hafa enga hagnýta merkingu:

Virt alþjóðlegt ráðgjafarfyrirtæki

Þetta er upplagt að nota til að reyna að selja slæmar hugmyndir eða þvo hendur sínar af spillingu.

Við munum fá virt alþjóðlegt ráðgjafarfyrirtæki til að meta raforkuverðið

Ég vildi selja bankann öðrum aðilum en við fengum virt erlent ráðgjafarfyrirtæki í málið og þeir ráðlögðu okkur að selja hann vinum mínum

Ekkert við þetta að athuga þegar það kemur frá Mafíunni en ekki viðeigandi í alvarlegum fréttaskýringum.

Lítum nánar á þessi þrjú orð og hvaða merking er raunverulega að baki.

Virt: Þetta hefur lítið með virðingu að gera og oftast má skipta þessu út fyrir stórt eða þekkt. HSBC, PWC o.s.frv. eru stór fyrirtæki en ekkert endilega virt á öllum sviðum. Það má bera virðingu fyrir því að þeim hafi tekist að auka veltu eða hækka verð í eigin hlutabréfum eða að eitthvert tiltekið verkefni hafi tekist vel en það er ekki þar með sagt að almennt þurfi að bera virðingu fyrir þeim. Það hljómar t.d. mjög undarlega að segja: “Hin virta skyndibitakeðja, Burger King”.

Alþjóðlegt: Þýðir þetta ekki bara að starfsemin er í fleiri en einu landi? Það hefur ekkert með það að gera hvort viðkomandi fyrirtæki sé hæfast til verksins. Hamborgararnir á Burger King eru ekkert betri þótt þeir séu alþjóðlegir.

Ráðgjafarfyrirtæki: Í dag eru allir ráðgjafar. Verkfræðingar, píparar, endurskoðendur, gjaldkerar, farsímasölumenn, verðbréfamiðlarar. Af þessu leiðir að orðið ráðgjafarfyrirtæki er nánast merkingarlaust. Nær væri að nota eitthvað sértækara sem raunverulega útskýrir hvað átt er við.

Hafið þetta í huga næst þegar hlýr straumur fer um smáborgarasálina við að heyra merkingarlaust mál.

Advertisements