Tillaga að stjórnarskrárbreytingu

by eiduralfredsson

Mig langar að vekja athygli á nokkru sem heitir á ensku evidence-based policy making. Þetta mætti kalla stefnumörkun byggða á staðreyndum. Til einföldunar má segja að hugmyndin sé að beita vísindalegri aðferð eins oft og hægt er til að taka ákvarðanir.

Oft virðast ráðamenn nota þveröfuga aðferð, þ.e. policy-based evidence making eða staðreyndir byggðar á stefnumörkun. Raunverulegar staðreyndir gleymast, rökhugsun er hent fyrir borð og klíkuskapur, hugsjónir, spuni, vanþekking og almenningsálit ráða ferðinni.

Það varðar t.d. við lög að reykja stuð eda gleypa E, en ekki að drekka sig haugafullan. Hér í Bretlandi var David Nutt rekinn fyrir ad færa góð rök fyrir máli sínu og leyfa sér að minnast á að fleiri dauðsföll hljótast af hestamennsku en E-notkun. Annað breskt dæmi er að vegna þrýstings frá almenningi er miklum fjárhæðum varið í að fyrirbyggja lestarslys, sem eru nú þegar mjög fátíð. Á sama tíma kippir fólk sér ekkert upp við að 3000 manns láta lífið í umferdarslysum á hverju ári.

Íslendingar líða nú meira en flestar aðrar þjóðir fyrir geðþóttaákvarðanir stjórnmálamanna. Hvernig væri að sýna gott fordæmi og setja inn ákvæði í íslensku stjórnarskrána um að allar ákvarðanir skuli byggðar á vísindalegum grunni og að mæla þurfi árangur stjórnvaldsaðgerða? Þannig verður það að stjórnarskrárbroti að taka vísvitandi ákvarðanir í andstöðu við staðreyndir. Við minnkum líka líkurnar á að peningum sé sturtað í fyrirfram vonlaus og heimskuleg verkefni eins og fíkniefnalaust Ísland árið 2000 og framboð til Öryggisráðsins.

Advertisements