xD heilkennið

by eiduralfredsson

Ég var að klára að lesa The Decisive Moment eftir Jonah Lehrer. Þetta er vel unnin bók en á léttu máli sem fjallar um hvernig mannsheilinn tekur ákvarðanir. Í einum hluta bókarinnar er rætt um kosningar og flokkadrætti og niðurstaðan er sú að flestir eru ófærir um að skipta um skoðun þegar þeir hafa einu sinni gert upp við sig að þeir tilheyri tilteknum stjórnmálaflokki.

Ein rannsókn fylgdist með 500 kjósendum sem kenndu sig “sterklega” við stjórnmálaflokka í forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 1976. Einungis 16 skiptu um skoðun og kusu annan flokk en þann sem þeir studdu í upphafi. Önnur bandarísk rannsókn fylgdist með flokkafylgni kjósenda frá 1965 til 1982. Nærri 90% þeirra sem sögðust vera Repúblíkanar árið 1965, kusu Ronald Reagan árið 1980, þrátt fyrir Víetnamstríð, Richard Nixon, olíukreppu og fleira í millitíðinni.

Dæmin eru óteljandi, en svo virðist sem kjósendaheilinn sé í raun ekki að vega og meta rökin með og á móti, heldur aðeins að leita uppi ástæður til að skipta ekki um skoðun. Þessu fylgir bein líkamleg vellíðan og viðkomandi er sannfærður um að valið sé byggt á traustum grunni. Vandamálið er í réttu hlutfalli við flokkshollustu.

M.ö.o. er verið að segja að meginþorri kjósenda skiptir aldrei um skoðun og ef það gerist, er það oftast tímabundið. Þetta er í mínum huga meginröksemd þess að framboð stjórnmálaflokka er ekki góður kostur. Þegar inn í kjörklefann er komið er maðurinn líkamlega (eða andlega, fyrir þá sem trúa á að það sé eitthvað annað en afleiðing heilastarfsemi) ófær um að greiða atkvæði með öðrum stjórnmálaflokki en þeim sem hann hefur einu sinni kennt sig við.

Jónas Kristjánsson kallar þá fávita sem enn styðja Sjálfstæðisflokkinn. Ég er alveg sammála en ég held að þeir geti hreinlega ekkert að því gert. Þetta er fötlun sem hrjáir okkur öll og ef við erum svo óheppin að verða Sjálfstæðismenn á einhverjum tímapunkti, þá er ekki aftur snúið. Það mætti kalla þetta xD heilkennið.

Hvað er til ráða? Í ljósi þess sem á undan greinir er afar óheppilegt að pína fólk til að kjósa flokka. Sterkir flokkar endast yfirleitt lengur en einstakir frambjóðendur og það þýðir að ef þeir ná góðu fylgi, þá þarf nokkrar kynslóðir kjósenda til að losna við þá og skiptir þá engu máli hve vel þeir standa sig. Er ekki miklu hollara að kjósa um einstaklinga? Ef tiltekinn frambjóðandi fær gott fylgi en reynist síðan vera handónýtur, þá þarf í versta falli að bíða eftir að hann falli frá. Þá er málið dautt (og maðurinn) og nýr maður kemur í staðinn.

En best væri náttúrulega að bólusetja við xD heilkenninu.

Advertisements